Mánuðum saman hafa vísindamenn bent á að nýja kórónuveiran, SARS-CoV-2, geti hangið í andrúmslofti innandyra og sýkt þá sem verða á vegi hennar. Ef þetta reynist rétt mun það breyta allri nálgun í sóttvörnum, til að mynda þyrfti þá mögulega að bera grímur innandyra, jafnvel á stöðum þar sem nándarmörk eru virt, svo sem á börum og veitingahúsum.
Í ítarlegri grein New York Times um málið kemur fram að loftræstikerfi, sem víða eru notuð til að dreifa lofti um byggingar á borð við skólahús, hjúkrunarheimili, vinnustaði og verslunarmiðstöðvar, geti dreift veirunni – ef vísindamennirnir hafa rétt fyrir sér.
WHO hefur lengi sagt að veiran breiðist aðallega út með dropasmiti og snertingu. Hún komist út úr líkama fólks með hósta eða hnerra en haldi sig í dropunum sem falli svo fljótt til jarðar.
En nú hafa 239 vísindamenn frá 32 löndum tekið sig saman og sent WHO opið bréf þar sem þeir rekja sannanir fyrir því að smærri agnir en dropar geti orðið til þess að sýkja fólk. Vill hópurinn að WHO endurskoði útgefnar leiðbeiningar sínar um hvernig veiran smitast manna á milli.
Benedetta Allegranzi, sem starfar hjá WHO, segir við New York Times að sannanir fyrir því að veiran geti borist í lofti og valdið smiti séu ekki sannfærandi. Hún segir að WHO telji að veiran geti borist með smáögnum inni á sjúkrahúsum í kjölfar læknisaðgerða og að samkvæmt leiðbeiningum eigi að hreinsa sjúkrastofur sérstaklega vel eftir þær, bæði loft og fleti. Annars vill stofnunin meina að smithættan sé mest í stærri ögnum: Dropunum umtöluðu.
Í samtölum New York Times við vísindamenn, m.a. þá sem sitja í ráðgefandi nefndum á vegum WHO, virðist sem stofnunin sé skrefi á eftir vísindunum í leiðbeiningum sínum hvað þetta varðar. Vísindamennirnir segjast þó hafa samúð með starfsfólki WHO, stofnunin fái ekki það fjármagn sem til þurfi og sé orðin bitbein milli heimsvelda í austri og vestri: Kína og Bandaríkjanna.
Blaðið hefur eftir Mary-Louise McLaws, faraldsfræðingi við háskólann í Suður-Wales í Ástralíu, að ef rætt yrði af fullri alvöru um smit af veirum í lofti myndi það þýða stökkbreytingu á viðbrögðum WHO og þar með heilbrigðisyfirvalda um allan heim. Þetta þurfi þó að gera.
Þegar í apríl ráðlagði hópur 36 sérfræðinga í loftgæðum WHO að skoða vísbendingar um að kórónuveiran gæti dreifst með lofti. WHO fór yfir málið en niðurstaðan var sú að breyta ekki leiðbeiningum um smitleiðir. Einn sérfræðinganna, Lindsay Marr við tækniháskólann í Virginíu, segir að í áratugi hafi verið vitað að agnir komi út úr líkamanum þegar fólk hóstar – en líka þegar það talar.
Vísindamönnum hefur hins vegar ekki tekist að rækta veiruna úr smáum ögnum á rannsóknarstofum. En Marr segir það ekki þýða að veiran geti ekki smitast með slíkum ögnum í andrúmsloftinu.