Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), gagnrýnir þann frest sem ríkisstjórnin tók sér til að ráðast í stofnun faraldsfræðistofnunar til að takast á við COVID-19 faraldurinn. Kári þekktist ekki boð um að koma og ræða við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í Stjórnarráðinu í dag en bauð henni á sinn fund í Vatnsmýrinni ef hún teldi það skila einhverju. Þetta kom fram í frétt RÚV í morgun.
„Það er dálítið kyndugt að í viðtali í gær þá segir Katrín að hún sé ekkert ósammála því að það væri skynsamlegt að setja upp svona stofnun eins og ég var að leggja til en að þetta þurfi allt að taka sinn tíma. Það vill svo til að við erum að fara í gegnum faraldur sem er þess eðlis að við höfum séð ástæðu til þess að svipta fólk grundvallarmannréttindum til þess að takast á við faraldurinn. Þegar þú ert á slíkum stað þá hreyfir þú þig ekki hægt,“ sagði hann í samtali við Morgunútvarpið á RÚV í morgun.
Kári greindi frá því í gær í opnu bréfi til Katrínar að frá og með deginum í gær myndi Íslensk erfðagreining hætta öllum samskiptum við sóttvarnalækni og landlækni út af SARS-CoV-2. Síðustu sýnin sem þau myndu afgreiða væru þau sem berast til þeirra mánudaginn 13. júlí.
Katrín tjáði sig á Facebook um málið í gær og sagði að hún vonaðist til þess að stjórnvöld og ÍE fyndu lausn á þessu máli og getu haldið áfram því verkefni að tryggja sem best heilbrigði þjóðarinnar.
Vonar að hægt sé að fá ÍE til að halda áfram að skima
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, sagði í samtali við Kjarnann í gær að hafist hefði verið handa við það að rífa niður veggi á deildinni, til þess að byggja þar upp nýja og betri aðstöðu með nýjum tækjum svo að deildin yrði í stakk búin til þess að taka við landamæraskimunum af Íslenskri erfðagreiningu. Stefnt er að því að þessari vinnu ljúki í lok ágúst.
Hann vonast til þess að hægt verði að fá Íslenska erfðagreiningu til að halda áfram að skima á landamærunum þangað til sýkla- og veirufræðideildin er tilbúin eftir breytingar.
„Annars erum við ekki í góðum málum varðandi ferðamennina. Það verður erfitt að skima alla sem eru að koma,“ sagði Karl, en hann sagði að deildin annaði því í mesta lagi að greina um 1.000 sýni á dag með núverandi tækjakosti.
Þar af væru kannski 2 til 300 sjúklingasýni frá Landspítalanum og því væri mögulegt greina á bilinu 5 til 700 sýni úr ferðamönnum, eins og fram kom í skýrslu verkefnisstjórnar um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum, sem skilað var til heilbrigðisráðherra í lok maí.