Lárus Sigurður Lárusson lögmaður hefur verið skipaður stjórnarformaður nýs Menntasjóðs námsmanna, sem kemur í stað Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skipar í stjórn sjóðsins.
Lárus starfar hjá lögmannsstofunni Sævar Þór & Partners. Hann starfaði áður sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu í rúm fimm ár áður en hann fór að leggja stund á lögmennsku. Þar áður var hann lögfræðingur hjá Persónuvernd. Alls starfaði Lárus sem lögfræðingur hjá ríkinu í meira en áratug.
Hann hefur setið í stjórn LÍN frá 2018 og verið varaformaður stjórnarinnar. Lárus situr einnig í stjórn um heiðurslaun listamanna og er varamaður í stjórn listamannalauna. Í þessar stjórnir var hann einnig tilnefndur eða skipaður í af Lilju Alfreðsdóttur.
Oddviti Framsóknar í Reykjavík norður árið 2017
Lárus hefur lengi verið virkur í starfi Framsóknarflokksins. „Ég hef verið í Framsóknarflokknum í meira en 20 ár. Það liggur við að það hafi stundum verið feimnismál að vera í Framsóknarflokknum og oft verið mjög erfitt,“ sagði hann í viðtali við Vísi árið 2016.
Þá var Lárus í 2. sæti á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir alþingiskosningar. Ári seinna, er boðað var að nýju til kosninga, var Lárus oddviti flokksins í kjördæminu og voru það því hann og Lilja Alfreðsdóttir sem fóru fyrir flokknum í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.
Mannaráðningar Lilju til umfjöllunar
Töluvert hefur verið fjallað um skipanir mennta- og menningarmálaráðherra í nefndir og embætti undanfarnar vikur, eftir að kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að Lilja hefði farið gegn jafnréttislögum er hún skipaði Pál Magnússon, fyrrverandi varaþingmann Framsóknarflokksins, í embætti ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sínu. Umboðsmaður Alþingis er einnig með skipunina til skoðunar.
Lilja hefur síðan þá farið í mál við Hafdísi Helgu Óladóttir, konuna sem kærði ráðninguna, til þess að reyna að fá úrskurðinum hnekkt. Ráðuneytið hefur sagt þá ákvörðun byggja á lögfræðiálitum sem ráðherra aflaði sér, sem hefðu bent á lagalega annmarka í úrskurði kærunefndarinnar og lagalega óvissu, sem Lilja vilji eyða.
Kjarninn hefur reynt að fá lögfræðiálitin afhent, en ráðuneytið synjaði beiðninni síðasta föstudag. Sú ákvörðun hefur verið kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Í kjölfar frétta um niðurstöðu kærunefndarinnar mál kom fram í fjölmiðlum að formaður hæfisnefndarinnar sem fjallaði um ráðningu í embætti ráðuneytisstjóra var lögfræðingurinn Einar Hugi Bjarnason.
Lilja hefur valið hann til ýmissa trúnaðarstarfa í ráðherratíð sinni og fram kom hjá RÚV að ráðuneytið hefði greitt honum alls 15,5 milljónir króna fyrir lögfræðiráðgjöf og nefndarsetu á vegum ráðuneytisins síðan árið 2017.
Ríkisfjölmiðillinn greindi einnig frá því að Lilja hefði farið gegn tillögu sérfræðinga í ráðuneyti sínu er hún fól Einari Huga formannshlutverkið í fjölmiðlanefnd í nóvember síðastliðnum.