Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) viðurkennir að rannsóknir séu farnar að benda til þess að nýja kórónuveiran, SARS-CoV-2, geti borist í örsmáum ögnum í lofti. Ekki sé hægt að útiloka að veiran smitist manna á milli með þessum hætti á mannmörgum, lokuðum eða illa loftræstum stöðum. Ef frekari staðfesting fæst á fyrirliggjandi rannsóknum er mögulegt að leiðbeiningum WHO um smitleiðir innandyra verði breytt.
Þetta sagði Benedetta Allegranzi, sérfræðingur tæknimála hjá WHO, á blaðamannafundi stofnunarinnar í gær. Benti hún á að stöðugt væri verið að komast að fleiru varðandi nýju veiruna. „Ég tel að við þurfum að vera opin fyrir þessum vísbendingum og opin fyrir því hvernig smit gætu borist með þessum hætti og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða í kjölfarið.“
239 vísindamenn skrifuðu grein í vísindatímaritið Clinical Infectious Diseases í fyrradag þar sem sagði að „marktækur möguleiki“ væri á því að anda að sér veiru í örsmáum ögnum sem geta borist úr stuttri vegalengd en líka um nokkra metra. Vildu vísindamennirnir að WHO myndi bregðast við með því að ráðleggja ný forvarnarviðmið í ljósi þessa.
WHO hefur hingað til sagt að veiran berist helst manna á milli með dropum, t.d. þegar fólk sýkt af veirunni hnerrar eða hóstar. Vísbendingar um að hún geti borist í lofti hafa komið fram í margar vikur og vildu vísindamennirnir að WHO tæki þær til alvarlegrar skoðunar. „Við vildum að þeir tækju mark á sönnunargögnunum,“ sagði Jose Jimenez, efnafræðingur við háskólann í Colorado og einn úr hópi vísindamannanna sem birti greinina.
„Þetta er alls ekki árás á WHO. Þetta er vísindaleg rökræða en okkur fannst við þurfa að gera þetta opinbert því [WHO] neitaði að hlusta á rökin þrátt fyrir margar samræður,“ heldur Jimenez áfram í viðtali við Reuters-fréttastofuna.