Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að spítalinn muni að sjálfsögðu axla þá ábyrgð sem honum hefur nú verið falin með því að taka við greiningu sýna úr skimunum á landamærum. Ósk um það barst frá forsætisráðherra upp úr hádegi á þriðjudag eftir að Íslensk erfðagreining, sem hafði sinnt verkefninu frá 15. júní, ákvað að hætta þátttöku sinni í því.
Páll skrifar í forstjórapistli sínum í dag að það sé skýrt að Landspítalanum beri að sinna skimun fyrir sjúkdómum sem hafa þýðingu fyrir almannaheill. Sóttvarnalæknir hafi metið að það eigi við um þessa skimun.
„Allir eru á dekki við að tryggja að spítalinn geti tekið við verkefninu 14. júlí næstkomandi,“ skrifar Páll. „Þar eiga sýkla- og veirufræðideild spítalans, heilbrigðis- og upplýsingatæknideild og reyndar allt þjónustusvið mikinn heiður skilinn. Starfsfólk hefur allt brugðist við af ótrúlegri snerpu og atorku með það að markmiði að tryggja að skimun gegn SARS-CoV-2 veirunni haldi áfram eftir 13. júlí.“
Nú þegar Landspítalinn taki við þessu „flókna og krefjandi verkefni“ njóti hann þekkingar Íslenskrar erfðagreiningar. „Starfsmenn þeirrar vísindastofnunar hafa sannarlega reynst bakhjarl þegar á hefur reynt í glímu við farsóttina undanfarna mánuði.“