Íslensk erfðagreining (ÍE) heldur áfram að greina sýni vegna skimana á landamærum í viku í viðbót, að því er fram kemur í frétt RÚV í dag.
Mikla athygli vakti í síðustu viku þegar Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, tilkynnti að fyrirtækið ætlaði að hætta skimun en til stóð að síðasti dagurinn ætti að vera í dag.
Hann sagði enn fremur í stöðuuppfærslu á Facebook fyrir helgi að það væri ekki verkefni ÍE að skima eftir veirum. Fyrirtækið hefði gert það á meðan faraldurinn gekk yfir landið vegna þess að þess hefði þurft og að enginn annar hefði verið til þess að gera það.
Auglýsing
Kári sagði að nú væri ástandið allt annað og ekki réttlætanlegt fyrir ÍE að halda því áfram. Landspítalinn væri „ágætlega í stakk búinn til þess að höndla þetta. Við munum gefa honum hugbúnað sem við settum saman til þess halda utan um sýni og gögn og senda þangað fólk til þess að kenna á hann. Og þess utan ef þau lenda í vanda, eða út í mýri, þá erum við hér, atvinnumenn og konur í því að vera út í alls konar mýrum og kunnum að takast á við það og rjúkum til og hjálpum. Þetta verður í fínu lagi,“ skrifaði hann fyrir helgi.