Í liðinni viku keypti Storytel streymisveitu arabískra hljóðbóka og ráðandi hlut í fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu hljóðbóka. Fyrir hafði Storytel keypt ráðandi hlut í Forlaginu.
Miðvikudaginn 8. júlí birtist tilkynning á vef Storytel þess efnis að félagið hefði fest kaup á einni af stærstu streymisveitum hljóðbóka á arabísku, Kitab Sawti. Í tilkynningunni segir að Kitab Sawti sé leiðandi fyrirtæki á sviði framleiðslu og streymis á hljóðbókum á arabísku en það var stofnað af sænskum frumkvöðlum árið 2016.
Vöxtur Kitab Sawti hefur verið mikill undanfarið en í tilkynningunni kemur fram að sala félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2020 hafi verið 79 prósentum meiri en á sama tíma í fyrra. Fyrirtækið hafi því verið öflugur keppinautur Storytel á þessu markaðssvæði en Storytel Arabia var sett á laggirnar árið 2017. Eftir sameiningu mun Storytel hafa yfir rúmlega fimm þúsund hljóðbókatitlum á arabísku að ráða, stærsta einstaka safni hljóðbóka á því tungumáli.
Tveimur dögum síðar birtist önnur tilkynning á vef félagsins um kaup á ráðandi hlut í Earselect AB en það er norrænt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu hljóðbóka. Fyrirtækið var stofnað árið 2017 og býr yfir hugbúnaði sem auðveldar framleiðslu hljóðbóka í fjarvinnu.
Í tilkynningu segir að að kaupin muni auka enn frekar skilvirkni í framleiðslu Storytel. Haft er eftir Robert Holmström, yfirmanni framleiðslu hjá Storytel, að tækni Earselect muni hraða framleiðslu hljóðbóka Storytel og auka hagkvæmni í framleiðslunni sem gerir fyrirtækinu kleift að mæta aukinni eftirspurn eftir gæðahljóðbókum.
Þann 1. júlí keypti Storytel ráðandi hlut í Forlaginu. Nú, líkt og þá, er kaupverðið trúnaðarmál. Fyrir 70 prósenta hlut sinn í Forlaginu greiðir Storytel með reiðufé en fyrir kaupin á Kitab Sawti og Earselect greiðir Storytel að hluta til með reiðufé og að hluta til með hlutum í Storytel.