Borgir og ríki víðs vegar um heiminn hafa sett á ýmsar takmarkanir á ný til að berjast gegn fjölgun nýrra smita af kórónuveirunni. Yfir 13 milljónir tilfella hafa greinst í heiminum. Framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar segir ekki hægt „að stytta sér leið“ í baráttunni gegn COVID-19. Misvísandi skilaboð leiðtoga séu eitt helsta vandamálið. Ef haldið verði áfram á sömu braut eigi faraldurinn eftir að „versna og versna og versna“.
Í dag voru settar á hertar takmarkanir í Hong Kong, þær hörðustu frá upphafi faraldursins. Yfirvöld telja hættuna á umfangsmiklum hópsmitum mikla. Frá og með miðnætti þurfa allir sem nota almenningssamgöngur að vera með andlitsgrímur. Þá er ekki hægt að borða á veitingahúsum eftir klukkan 18 á kvöldin – aðeins verða leyfðar heimsendingar eftir þann tíma.
Aðgerðirnar eru nýjar því ekki var gripið til þeirra í fyrstu bylgju faraldursins og heldur ekki þeirri sem fylgdi á eftir.
Í höfuðborg Filippseyja, Manilla, hefur útgöngubann verið sett á að hluta. Það nær til um 250 þúsund íbúa. Á Filippseyjum hafa greinst 57 þúsund tilfelli og tæplega 1.600 hafa látist vegna COVID-19.
Í Bandaríkjunum hafa greinst um 60 þúsund ný tilfelli daglega í tæpa viku. Ríkisstjóri Kaliforníu hefur ákveðið að loka öllum börum í ríkinu og engin starfsemi má fara fram innandyra í kvikmyndahúsum, leikhúsum og á veitingastöðum. Í 30 sýslum í Kaliforníu þarf að loka ákveðnum samkomustöðum á borð við bænahús, líkamsræktarstöðvar, hárgreiðslustofur og verslunarmiðstöðvar. Í kjölfar afnáms takmarkana nýverið hóf smitum að fjölga hratt í ríkinu. Yfir 8.200 ný tilfelli hafa greinst daglega síðustu vikuna.
Í dag urðu tímamót í Ástralíu er tilfelli af COVID-19 fóru yfir 10 þúsund. Þegar hafði verið gripið til hertra aðgerða í Melbourne en nú hafa yfirvöld í Nýja Suður-Wales sett á fjöldatakmarkanir. Ekki fleiri en tíu mega koma saman í hverjum hópi á börum og samkomur takmarkast við 300 manns að hámarki. Þá er þeim sem standa að viðburðum og taka á móti viðskiptavinum skylt að fylgja ströngum sóttvarnarráðstöfunum og fólk á að halda tveggja metra fjarlægð sín á milli. Ástæðan er sú að hópsmit tíu manna er rakið til bars í Sydney. Heimilt er að sekta fólk sem ekki virðir nýju reglurnar.
Ástralar höfðu náð góðum árangri í baráttunni gegn kórónuveirunni. Þeir vilja því tryggja að önnur bylgja faraldursins brjótist ekki út.
Stjórnvöld á Englandi hafa ákveðið að viðskiptavinir verslana verði að bera andlitsgrímur frá og með deginum í dag. Misvísandi skilaboð hafa borist frá ríkisstjórninni varðandi leiðbeiningar til almennings. Bretar búa sig nú undir aðra bylgju faraldursins sem sérfræðingar telja að gæti dregið 120 þúsund manns til dauða í vetur ef allt fari á versta veg.
Aðgerðir endurspegla ekki hættuna
„Ég ætla að vera hreinskilinn, mörg lönd eru að fara í ranga átt,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar á blaðamannafundi í gær. „Veiran er enn óvinur númer eitt en aðgerðir margra ríkisstjórna endurspegla það ekki. Eina markmið veirunnar er að finna fólk til að sýkja.“
Sagði hann að misvísandi skilaboð frá leiðtogum væri að grafa undan því mikilvægasta í baráttunni: Trausti. Ef ríkisstjórnir senda ekki skýr skilaboð til borgara og vinna að markvissum áætlunum til að draga úr útbreiðslu veirunnar og ef almenningur fylgir ekki einföldum sóttvarnarráðstöfunum „mun faraldurinn aðeins fara í eina átt. Hann á eftir að versna og versna og versna“.
Hann sagði að hægt væri að koma í veg fyrir það ef „hver einasti leiðtogi, hver einasta ríkisstjórn og hver einasta manneskja geri sitt til að rjúfa smitkeðjuna“.
Framkvæmdastjórinn sagðist gera sér grein fyrir að verkefnið væri ekki einfalt og að margir þjóðarleiðtogar væru að vinna við mjög erfiðar aðstæður, m.a. efnahagslegar og félagslegar.
Benti hann á nýja rannsókn Sameinuðu þjóðanna um að á síðasta ári hafi 690 milljónir manna búið við sult. Enn er óljóst hver áhrif COVID-19 verða á fátækt en sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja að um 130 milljónir manna til viðbótar eigi eftir að bætast í hóp hungraðra jarðarbúa.
„Það er ekki hægt að stytta sér leið út úr faraldrinum,“ sagði Ghebreyesus. „Við vonum öll að árangursríkt bóluefni finnist en við verðum að einbeita okkur að því núna að nota þau verkfæri sem við höfum til að draga úr útbreiðslunni og bjarga mannslífum.“
Erindi sínu lauk hann á þessum orðum: „Ég vil vera hreinskilinn við ykkur: Við munum ekki snúa til sömu lífshátta í fyrirsjáanlegri framtíð. En við höfum vegvísi til að geta náð tökum á sjúkdómnum og haldið áfram að lifa lífinu.“
Vegvísirinn er þríþættur:
Í fyrsta lagi þarf að vinna að því að fækka smitum og draga úr dauðsföllum af völdum sjúkdómsins.
Í öðru lagi að valdefla samfélög svo fólk taki persónulegar sóttvarnarráðstafanir alvarlega og gæti að hvert öðru.
„Og í þriðja lagi þurfum við sterka þjóðarleiðtoga og útfærslu á aðgerðaráætlunum sem er komið til skila á skilvirkan og skiljanlegan hátt. Sama hvar hvert land er statt á kúrfu faraldursins, það er aldrei of seint að grípa til aðgerða.“
Samvinna væri lykilatriði og hún þyrfti að hefjast þegar í stað.