„Svona er ástandið í kvennaparadísinni; vinnandi konur eiga von á því að vera útmálaðar sem galnar og haldnar skemmdarfýsn, eiga von á því að vera hæddar og smánaðar fyrir það eitt að reyna að standa vörð um réttindi sín og berjast fyrir eðlilegum launum fyrir sína unnu vinnu. Í þeirri atlögu taka þátt ríkir og valdamiklir karlar, sem svífast nákvæmlega einskis. Ljóst er að kven-vinnuaflið verður að standa saman nú sem aldrei fyrr.“
Þetta kemur fram í ítarlegum pistli sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, birti á Facebook-síðu sinni í dag.
Hún segir vinnandi fólk á Íslandi undanfarna daga og vikur enn á ný fengið innsýn í „hugarheim auð- og valdastéttarinnar sem telja sig eigendur íslensks samfélags“.
Icelandair og Samtök atvinnulífsins hafi gengið fram af „ótrúlegri hörku“ gagnvart Flugfreyjufélagi Íslands. Félagsmenn þess hafi þurft að þola „kúgun og ógnarstjórnun milljón krónu-mannanna“. Hún segir kvennastétt sem noti „hjarta, hendur og heila við sína vinnu hefur þurft að þola það að vera sagt upp stöfum, kastað í ruslið, vegna þess að meðlimir hennar vildu ekki hlýða skipunum frá þeim sem telja sig eigendur alls á þessari eyju“.
Lestu meira
Vegna þeirra orða er fallið hafið um hugsanlega þátttöku lífeyrissjóðanna í áformuðu hlutafjárútboði Icelandair bendir Sólveig á að að vinnandi fólk á Íslandi „getur ekki og mun ekki samþykkja að eftirlaunasjóðir þess verði nýttir til að fjármagna árásir á grunnréttindi vinnuaflsins eða til fjármögnunar á fyrirtækjum sem standa í fararbroddi slíkra árása. Að forystufólk í verkalýðsfélögum bendi á þessa augljósu staðreynd er fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt. Það er einhverskonar úrkynjun að skilja það ekki.“