Blokkamyndun innan Evrópusambandsins er orðin skýrari nú en áður að mati Dr. Eiríks Bergmanns prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Nú þegar Bretar hafa yfirgefið sviðið er öxullinn á milli Þýskalands og Frakklands orðinn skýrari, segir Eiríkur í samtali við Kjarnann.
„Það sem að gerist fyrst og fremst er að þessi öxull Þýskalands og Frakklands verður enn skýrari heldur en þegar Bretar voru þarna sem þriðja hjólið undir þeim vagni. Síðan hefur verið að teiknast upp munur á milli þessara hópa mun skýrar, norðursins og suðursins, skýrari munur heldur en áður var. Hann varð augljós í fjármálakrísunni en munurinn núna er sá að þá lágu línurnar dálítið skýrt milli norðurs og suðurs þar sem Þýskaland og Frakkland tóku afstöðu með norðrinu en núna eru þau í miklu meira málamiðlunarhlutverki þarna á milli og eru til dæmis talsmenn beinna styrkja en ekki bara lánafyrirgreiðslna. Þarna er orðin ákveðin breyting,“ segir Eiríkur.
Minna í styrki heldur en lagt var upp með
Líkt og Eiríkur segir töluðu Þjóðverjar og Frakkar fyrir því að stór hluti björgunarpakkans yrði greiddur út í styrkjaformi. Í upphaflegri tillögum Macron og Merkel var gert ráð fyrir að alls yrðu 500 milljarðar evra greiddir út í styrkjaformi af alls 750 milljörðum sem björgunarpakkinn hljóðar upp á.
Mikið fór fyrir sparsömu blokkinni í umræðum síðustu daga sem talaði fyrir lánafyrirgreiðslum til aðildarríkja í stað styrkja. Sparsama blokkin samanstendur jafnan af fjórum ríkjum; Hollandi, Austurríki, Danmörku og Svíþjóð en í nýafstöðnum viðræðum bættist Finnland í hópinn. Svo fór að björgunarpakkinn minnkar ekki að umfangi en alls verða 390 milljarðar evra greiddar út í styrkjaformi og 360 milljarðar ætlaðar í lán.
Spurður að því hvort að ekki sé um málamiðlunarniðurstöðu að ræða segir Eiríkur: „Evrópusambandið er bara ein risastór málamiðlunarfabrikka. Þetta voru endalausar málamiðlanir milli þessara aðila til að finna einhverja lausn sem enginn er sáttur við en allir geta lifað við.“
Ríki sem brjóta aðildarskilyrði flækja málin
Eiríkur segir afstöðu ríkja í Austur Evrópu til málefna sem eru grundvallarskilyrði fyrir aðild að sambandinu hafa flækt málin. „Síðan er ný vídd í þessu öllu saman sem gerir allt miklu flóknara og það er austrið. Þar ertu kominn með stjórnvöld víða sem hafa fært ríki sín beinlínis í andstöðu við grundvallar aðildarskilyrði að Evrópusambandinu hvað varðar réttarríkið einkum og sérílagi og jafnvel lýðræði að einhverju leyti og þess vegna þriðja atriðinu sem eru mannréttindi. Þetta eru grundvallaratriði sem ríki verða að uppfylla vilji þau vera aðilar að Evrópusambandinu.“
Eitt af því sem tekist var á um í viðræðunum var réttur þessara ríkja til þess að þiggja stuðning úr björgunarpakkanum. „Þessi blokk sem kallar sig sparsömu blokkina, þau vildu setja stíf skilyrði um að greiðslur úr sjóðum Evrópusambandsins færu ekki til ríkja sem að gengju gegn grundvallaraðildarskilyðum um réttarríkið. Og þetta var mikill ásteytingarsteinn miklu fremur en upphæðirnar sem um var að tefla,“ segir Eiríkur.
Málið sem tekið var fyrir á síðustu dögum krefst stuðnings allra ríkja sambandsins og eru slíkar umræður yfirleitt erfiðari heldur en aðrar að sögn Eiríks. Sú málamiðlun var gerð að vísa þeim atriðum er varða skilyrði fyrir útgreiðslum í síðari umræður innan Evrópusambandsins og því mun verða kosið um skilyrðin síðar í meirihlutakosningu. Pólland og Ungverjaland hafa því ekki neitunarvald varðandi þau skilyrði sem sett verða.
Evrópusambandið hafi nú þegar farið í aðgerðir gegn þessum ríkjum og virkjað svokallaða sjöundu grein sáttmálans um Evrópusambandið. Verði niðurstaðan sú að þau brjóta ekki aðildarskilyrðin þá verður ekki hægt að beita þau neinum viðurlögum þegar kemur að útdeilingu vegna björgunarpakkans.