Mikil afkastaaukning hefur orðið hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans eftir að verkferlum var breytt. „Sú aðferð að keyra saman fimm skimunarsýni reynist vel og nýtir miklu betur tæki og hvarfefni en kallar á móti á flóknari ferla. Í heild er það okkar mat að afkastageta deildarinnar hafi nú þegar aukist um það bil fimmtánfalt með þeim breytingum sem gerðar hafa verið og mun aukast enn á næstu vikum og mánuðum,“ sagði Páll Matthíasson á upplýsingafundi Almannavarna í dag.
Hann sagði að það hefði verið ærið verkefni að taka við skimunum á landamærum af Íslenskri erfðagreiningu. „Það var bókstaflega lögð nótt við nýtan dag til að tryggja að við gætum tekið við verkefninu. Það þurfti að tryggja að mannskapur sem hafði unnið á okkar vegum í húsnæði íslenskrar erfðagreiningar gæti athafnað sig hjá okkur, það þurfti að ráðast í verulegar húsnæðisbreytingar, það þurfti að setja upp ný tæki.“
Það flóknasta hafi hins vegar verið að setja upp nýja verkferla og finna út úr því hvernig hægt væri að sameina nokkur sýni í eitt þegar skimað er að sögn Páls. Frá og með síðasta sunnudegi, 19. júlí, hafi öll vinnsla farið fram í húsnæði veirufræðideildar við Ármúla 1 og gengið vel.
Páll sagði að þetta hefði ekki getað tekist ef ekki væri fyrir frábært starfsfólk spítalans. Hann þakkaði starfsfólki hinna ýmsu deilda spítalans; sýkla- og veirufræðideildar, heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar, fasteignadeildar auk þess sem hann þakkaði starfsfólki Íslenskrar erfðagreiningar.