Um 2.600 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands á sjö daga tímabili, 13.-19. júlí. Það eru nokkuð færri en vikuna á undan þegar um 3.100 jarðskjálftar voru staðsettir. Ekki hefur unnist tími til að yfirfara alla skjálftana, segir í samantekt veðurstofunnar en um 760 jarðskjálftar eru yfirfarnir.
Flestir skjálftar vikunnar voru á Reykjanesi í tveimur þyrpingum nærri Grindavík. Önnur nærri Þorbirni og tengd landrisi og kvikuinnskotum sem þar hafa átt sér stað og hin í hrinu rétt norðan við Fagradalsfjall sem hófst að kvöldi 19. júlí. Einnig mældist töluverður fjöldi skjálfta í hrinunni við mynni Eyjafjarðar sem hófst þann 19. júní.
Alls mældust um 700 skjálftar á tímabilinu við Fagradalsfjall og einnig við mynni Eyjafjarðar og rúmlega 500 skjálftar nærri Þorbirni. Stærsti skjálfti vikunnar mældist við Fagradalsfjall 5,1 að stærð þann 19. júlí kl. 23:36. Hann fannst allt austur til Víkur og norður í Borgarfjörð. Tíu skjálftar yfir 3,0 að stærð mældust í vikunni, þar af þrír yfir 4 að stærð, og mældust þeir fyrir norðan, við Grindavík og tveir í Bárðarbungu. Fjórir smáskjálftar mældust við Heklu, allir um og undir 0,5 að stærð. Fjórir skjálftar mældust í Grímsvötnum þrír undir 1 að stærð og einn 1,2.