Það fer án efa ágætlega um flugfarþega sem leggja leið sína um Keflavíkurflugvöll þessa dagana, enda nóg pláss nú þegar unnið er á vel innan við tíu prósentum af afkastagetu vallarins. Undanfarnar vikur hafa um 16-20 flugvélar lent á hverjum sólarhring, eða um það bil sá fjöldi sem vanalega gæti verið að lenda á einni klukkustund.
Völlurinn getur reyndar tekið við 26 vélum að hámarki á klukkustund, en fjöldi flugvéla nær því ekki einu sinni á einum degi eins og staðan er nú. Ferðum fjölgar þó dag frá degi og nú er í undirbúningi að ráða aftur hluta starfsfólks hjá Airport Associates sem sagt var upp vegna Covid 19.
Sífellt bætist í hóp þeirra flugfélaga sem fljúga til og frá Keflavík. Nú fljúga þrettán flugfélög um Keflavíkurflugvöll. Icelandair er með langmest af ferðum, um helming allra ferða um völlinn til alls 21 áfangastaðar, þar af 20 í Evrópu. Ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air er þó ekki síður með mikil umsvif en félagið hefur verið að bæta við sig og flýgur nú frá Keflavík til alls tíu áfangastaða í Evrópu. Önnur flugfélög fljúga aðeins til eins eða tveggja áfangastaða.
Spánarflug á næsta leiti
Á næstunni bætast enn fleiri flugfélög við sem fljúga um Keflavík. Í leitarvél spænska lággjaldaflugfélagsins Vueling má til að mynda finna flug milli Keflavíkur og Barcelona frá næstu mánaðamótum en eins og staðan er nú eru engin skipulögð áætlunarflug til og frá Spáni, aðeins leiguflug.
Auk þess sem ný flugfélög munu bætast við á næstunni hafa þau sem nú eru að fljúga verið að bæta við ferðum eins og til dæmis Wizz Air og Air Baltic auk Icelandair.
„Þetta er hægfara í rétta átt, þetta er allt að koma. En bara það að það vanti allt flug til Ameríku gerir það að verkum að þetta sumar eða haust verður aldrei svipur hjá sjón. En Evrópa er jákvæð og núna seinnipartinn í júlí og ágúst eru fleiri félög að bætast við, til dæmis Vueling, Iberia Express og rússneska flugfélagið S7,” segir Sigurþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, sem sinnir þjónustu við mörg flugfélög í Keflavík.
Í kjölfar tekjufalls vegna Covid-faraldursins sögðu Airport Associates upp um 130 starfsmönnum en nú er unnið að því að meta í hve mörgum tilvikum er hægt að afturkalla uppsagnir og að sögn Sigurþórs verður mörgum boðin staða að nýju fyrir mánaðamótin næstu. Flestir sem fengu uppsagnarbréf eru enn að störfum hjá fyrirtækinu.
„Það verður talsvert um endurráðningar og suma höfum við ráðið aftur nú þegar. Ágústmánuður stefnir í að verða um 50 prósent af því sem hefði átt að vera. Flugfélögin eru búin að bóka [stæði] á flugvellinum fram í tímann, þannig að við sjáum hvað félögin ætla sér og metum þörfina út frá því.”
Nýtingin á uppleið
Sigurþór telur nýtingu véla hjá þeim flugfélögum sem eru að fljúga gegnum Keflavík vera á uppleið. „Þegar opnaði þá voru kannski 30-40 manns í hverri vél en nú eru flestar vélar að koma með yfir 100 farþega þannig að nýtingin gæti verið komin vel yfir 50 prósent."
Þjónusta við farþega á flugvellinum sjálfum er talsvert minni en í venjulegu árferði. Til dæmis er aðeins hægt að kaupa sér að borða á tveimur stöðum í Leifsstöð. Mathús og annar staður Joe and the Juice eru opnir en aðrir veitingastaðir eru lokaðir. Flugvallarútibú veitingastaðarins Hjá Höllu verður til að mynda lokað að minnsta kosti út september en þá á að taka stöðuna og meta hvort borgi sig að opna.
Fríhöfnin er eina verslunin sem hefur verið opin allan tímann, óháð Covid 19, en nú hafa aðrar verslanir á flugvellinum flestar verið opnaðar þótt viðskiptin séu ekki í neinni líkingu við það sem var áður en brast á með heimsfaraldri.