„Það er nokkuð ljóst að næstu dagar og kannski einkum næstu tvær helgar eru talsverð áskorun fyrir lögregluliðin í landinu," sagði Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi Almannavarna, síðasta fundinum í bili.
Hópamyndum er það sem lögreglan hefur helst áhyggjur af og Karl Steinar brýnir sérstaklega fyrir fólki að virða þær reglur sem í gildi eru. Að hámarki mega 500 manns koma saman og áfram er fólk hvatt til að virða tveggja metra regluna.
„Við brýnum fyrir fólki að virða reglur um hópamyndum, hvort serm er á landsbyggðinni, á tjaldstæðum eða að sækja þær skemmtanir sem standa til boða í höfuðborginni eða öðrum byggðalögum."
Lögregluembætti á landsbyggðinni eru í góðu samstarfi við rekstraraðila tjaldsvæða og annarra staða þar sem fólk er líklegt til að hópast saman næstu helgar, einkum um Verslunarmannahelgina.
Að sögn Karls Steinars er ekki annað að sjá en að mikill vilji sé hjá öllum til að fylgja þeim reglum sem í gildi eru. Lögreglan sé mjög tilbúin í verkefni næstu helga.
Hvatt til nágrannavörslu
Hann kom inn á það á fundinum að það að loka öllum veitingastöðum á sama tíma hefði vissulega opnað á hættu á hópamyndun í miðborginni en sagði að gengið hefði vel að afstýra því og koma í veg fyrir að hópar yrðu of stórir.
„En eftir að þessar breytingar urðu, að afgreiðslutíminn var styttur, hefur orðið aukning á tilkynningum í heimahúsum. Við höfum fengið fleiri kvartanir um hávaða í heimahúsum en áður. Á móti kemur að það er minna um verkefni fyrir lögreglu í miðbænum," benti hann á.
Karl Steinar hvatti fólk ennfremur sérstaklega til að huga að nágrannavörslu nú þegar stórar ferðahelgar fara í hönd og margir eru að heiman.