Annar einstaklinganna sem greindist með Covid-19 smit um síðustu helgi var keppandi á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum í aldursflokknum 15-22 ára sem fram fór í Kaplakrika.
Um 30 manns hafa verið sendir í sóttkví vegna smitsins og er að minnsta kosti hluti af þeim keppendur á mótinu, samkvæmt upplýsingum frá Frjálsíþróttasambandi Íslands. Smitrakning er á lokametrunum.
Meistaramót Íslands í flokki fullorðinna hefst á morgun á Akureyri og stendur yfir um helgina. Engin áform eru um að hætta við að halda mótið þrátt fyrir smitið um síðustu helgi en Frjálsíþróttasambandið er í góðu samstarfi við við Almannavarnir og embætti landlæknis vegna þessa.
Unnið hefur verið að því með mótshaldara fyrir norðan að auka aðgæslu varðandi smitvarnir, svo sem sótthreinsun áhalda, fjarlægð milli keppenda og fleira til að gæta fyllstu varúðar á mótinu.