Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) og Davíð Þorláksson forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs SA beina því til Ragnars Þór Ingólfssonar, formanns VR að draga fullyrðingar sínar um þrýsting af hálfu þeirra tveggja vegna fjármögnunar framkvæmda á hinum svokallaða Landsímareit til baka.
Einnig fara þeir fram á að Ragnar biðjist afsökunar, ella sé „óhjákvæmilegt að þau sem hafa orðið fyrir órökstuddum dylgjum hans íhugi réttarstöðu sína.“
„Það getur einfaldlega ekki annað verið að hann geri það því það er skýrt brot á landslögum að ásaka saklaust fólk um svo alvarlega háttsemi sem hann hefur nú gert,“ skrifa Halldór Benjamín og Davíð í grein sem birtist í dag á vef Samtaka atvinnulífsins, en tilefnið eru sögð orð Ragnar Þórs í viðtali við Fréttablaðið á fimmtudaginn.
Blaðið hafði óbeint eftir honum í inngangi greinar sem birtist á vef þess að verkalýðsforinginn teldi að margt benti til þess að þeir Halldór Benjamín og Davíð hefðu beitt sér fyrir því að lífeyrissjóðirnir settu pening inn í Lindarvatn ehf. Ragnar Þór sagðist þó ekkert vera að fullyrða um það, en sagði að fara þyrfti fram „óháð rannsókn“ á því hver bæri ábyrgð á málinu, sem hann hefur tjáð sig um í löngu máli í Facebook-færslum að undanförnu. Ragnar Þór hefur gert miklar athugasemdir við stöðu verkefnisins á Landssímareitnum og sagt það dæmi um „spillingu“ innan lífeyrissjóðakerfisins.
Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns ehf., sagði í vikunni að fullyrðingar hans stæðust ekki skoðun. Ragnar Þór svaraði um hæl og sagði óreiðu hafa verið í rekstri Lindarvatns undanfarin ár, lífeyrissjóðirnir væru líklega að fara að tapa fé á fjárfestingu sinni í verkefninu og á því bæru einhverjir ábyrgð.
Jóhannes Stefánsson framkvæmdastjóri Lindarvatns ehf. svarar af veikum mætti spurningum mínum um framkvæmdina á...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Tuesday, July 21, 2020
„Er það Halldór Benjamín eða Davíð Þorláksson? Ég veit það ekki. Eru það stjórnendur Icelandair?“ sagði Ragnar Þór, í samtali sínu við blaðamann Fréttablaðsins. „Ég veit ekki hver sökudólgurinn er í þessu máli en almennt séð er saga atvinnulífsins blóði drifin innan íslenska lífeyrissjóðakerfisins,“ bætti hann við.
Bæði Halldór Benjamín og Davíð störfuðu áður hjá Icelandair Group, en þeir fara yfir málið í grein sinni í dag og segja að í störfum sínum fyrir félagið hafi þeir hvergi nær komið nálægt kaupum Icelandair á helming hlutafjár í Lindavatni árið 2015. „Það voru aðrir starfsmenn félagsins, auk ytri ráðgjafa, sem sáu algjörlega um þetta verkefni,“ segja Halldór og Davíð, sem segja líka einfalt að benda á að þeir hafi ekki beitt sér innan SA fyrir því að lífeyrissjóðirnir tækju þátt í endurfjármögnun Lindarvatns í lok mars árið 2016, enda hafi hvorugur þeirra verið byrjaður að starfa fyrir SA á þeim tímapunkti.
„Öll þurfum við að þola gagnrýni. Ekki síst stórfyrirtæki, stórir fjármagnseigendur eins og lífeyrissjóðir, samtök sem tilnefna stjórnarmenn lífeyrissjóða, sem og stjórnendur slíkra samtaka. Þegar þú hins vegar brigslar fólki um óheiðarleika og alvarleg lögbrot, án þess að hafa nokkuð fyrir þér, þá ertu komin út fyrir öll mörk. Ekki síst ef þú ert aðili með greiðan aðgang að fjölmiðlum og að fjölda fólks sem treystir þér og leggur trúnað á orð þín,“ segja Halldór Benjamín og Davíð um orð Ragnars Þórs.
Hef upplifað ýmislegt, hafandi verið þátttakandi í þjóðmálaumræðunni, en þetta er það ömurlegasta sem ég hef séð - að vera sakaður um lögbrot þegar ég veit að ég hef unnið mín störf af heiðarleika. https://t.co/KACMFLAYEA
— Davíð Þorláksson (@davidthorlaks) July 25, 2020
Þeir bæta því við að það sé „sorgleg staðreynd“ og „umhugsunarefni fyrir alla sem styðja opna og lýðræðislega umræðu í samfélaginu“ að Ragnar Þór hafi ekki aflað sér upplýsinga um málið hjá þeim sjálfum eða nokkrum sem því tengist, „áður en hann fór fram með þessar alvarlegu ásakanir á opinberum vettvangi.“