Benedikt Bogason hefur verið kjörinn forseti Hæstaréttar og Ingveldur Einarsdóttir varaforseti réttarins, en kosning fram fór á fundi dómara réttarins í dag. Taka þau við embættum sínum 1. september 2020 og verða í þeim út árið 2021 hið minnsta.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hæstarétti. Benedikt Bogason er í dag varaforseti réttarins, en forseti Hæstaréttar er Þorgeir Örlygsson, sem hefur beðist lausnar frá réttinum.
Benedikt Bogason hefur verið hæstaréttardómari frá árinu 2012, en Ingveldur var skipuð hæstaréttardómari í desember í fyrra.
Miklar breytingar hafa orðið á samsetningu Hæstaréttar Íslands undanfarin misseri og fleiri eru í farvatninu, en auk Þorgeirs Örlygssonar var greint frá því að Greta Baldursdóttir hefði beðist lausn frá dómaraembætti sínu í byrjun þessa mánaðar.
Auglýst hefur verið eftir tveimur dómurum í þeirra stað og þegar búið verður að skipa þá munu fjórir af sjö dómurum réttarins hafa verið skipaðir frá því í desember 2019, þar af þrír á árinu 2020.
Nýr forseti í málaferlum við Jón Steinar Gunnlaugsson
Benedikt Bogason hefur sem áður segir verið hæstaréttardómari frá árinu 2012 og varaforseti réttarins frá því í maí. Hann hefur verið í fréttum undanfarin misseri vegna þess að hann höfðaði meiðyrðamál á hendur Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, vegna ummæla sem birtust í bók Jóns Steinars „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“.
Þar taldi Benedikt að höfundur bókarinnar hefði ætlað sér að hafa af ásetningi komist að rangri niðurstöðu með þeim afleiðingum að saklaus maður, Baldur Guðlaugsson, hafi verið dæmdur í fangelsi. Benedikt vildi meina að hugtakið dómsmorð væri ærumeiðandi aðdróttun og með þeim hafi Jón Steinar fullyrt að Benedikt hafi af ásetningi komist að rangri niðurstöðu í dómsmáli með þeim afleiðingum að saklaus maður hafi verið sakfelldur og dæmdur í fangelsi.
Héraðsdómur Reykjaness sýknaði Jón Steinar af tveggja milljóna króna kröfu Benedikts vegna meintra ærumeiðinga á sínum tíma og í fyrrahaust staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu.
Í febrúar samþykkti Hæstiréttur hins vegar umsókn Benedikts um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í meiðyrðamálinu.