Icelandair Group býst við því að fyrirtækið muni sækja að minnsta kosti 24 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 3,3 milljarða íslenskra króna, í styrki til stjórnvalda vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti starfsmanna. Þetta kemur fram í árshlutareikningi fyrirtækisins sem birtur var í gær.
Þar segir, á blaðsíðu 24, að félög í eigu Icelandair Group vinni nú að því að sækja um styrkina sem stjórnvöld kynntu, en að ennþá sé óvíst hversu margir starfsmenn muni verða hluti af umsókninni, sem fari meðal annars eftir því hversu marga starfsmenn félagið muni geta endurráðið áður en uppsagnarfrestur þeirra rennur út í sumar og í haust.
Icelandair reiknaði þessi ætluðu áhrif uppsagnarstyrkja inn sem lækkaðan kostnað við starfsmannahald á öðrum ársfjórðungi, og því er bætt við að við að ekki sé loku fyrir það skotið að félagið sæki um enn hærri uppsagnarstyrki, sem komi þá inn í reikningshald félagsins á þriðja ársfjórðungi.
Þegar lögin um uppsagnarstyrkina, stuðningi úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, voru kynnt var gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna frumvarpsins yrði í heildina um 27 milljarðar króna.
Stuðningurinn nemur að hámarki 85 prósent launa starfsmanns á uppsagnarfresti, og ríkið greiðir ekki nema að hámarki 633 þúsund krónur á mánuði af launum hvers og eins starfsmanns og styrkir fyrirtæki einungis til að greiða þrjá mánuði af uppsagnarfresti, jafnvel þó starfsmenn hafi lengri uppsagnarfrest.
Fengu rúmar 270 milljónir fyrir að halda úti samgöngum
Icelandair tiltekur einnig að félagið hafi bókfært tveggja milljóna bandaríkjadala tekjur, jafnvirði 271 m.kr., vegna samninga við ríkið um að halda samgönguleiðum til og frá landinu opnu á meðan að ferðatakmarkanir vegna COVID-19 faraldursins voru í hámarki.
Ríkið greiddi Icelandair fyrir að fljúga leiðir ákveðnar leiðir til Evrópu og Bandaríkjanna, þrátt fyrir að eftirspurn væri lítil sem engin. Einnig fékk Air Iceland Connect greiðslur fyrir að halda úti reglulegu flugi frá Reykjavík til Egilsstaða og Ísafjarðar.
Hlutabótaleiðin ekki í bókum Icelandair
Icelandair Group tekur einnig fram að félagið hafi minnkað starfshlutfall yfirgnæfandi meirihluta starfsmanna frá lokum mars og fram til loka maí og að á meðan á þeim aðgerðum stóð yfir hafi starfsmenn fengið greiðslur frá Vinnumálastofnun.
Áhrifa þessa er ekki sérstaklega getið í reikningsyfirliti Icelandair Group, en fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem gefin var út í lok maí að í mars og apríl hefðu starfsmenn félaga Icelandair Group fengið greidda 1,11 milljarða króna í hlutabætur.
Í lok maí gaf Icelandair það út að fyrirtækið væri hætt að nýta hlutabótaleiðina og bauð starfsfólki þess í stað að koma til starfa í 90 prósent starfshlutfalli eða í fullt starf með skertum launum.
Inneignarnótur fyrir á tíunda milljarð króna
Ýmsir forvitnilegir molar eru í uppgjöri Icelandair um hvernig það er að reka flugfélag þegar það er beinlínis mælst til þess að fólk fljúgi ekki á milli landa og haldi sig helst bara heima. Þannig segir að Icelandair hafi gefið út inneignir til viðskiptavina sinna fyrir 67,2 milljónir dollara á fyrstu sex mánuðum ársins, sem jafngildir um 9,1 milljarði króna.
Túristi vakti fyrst athygli á þessu fyrr í dag og bendir miðillinn á að Icelandair, rétt eins og öll önnur flugfélög, muni núna á næstu misserum þurfa að flytja mikinn fjölda farþega sem hafa þegar greitt fyrir flugið sitt en koma ekki inn með neinar viðbótartekjur. Upphæðin sem Icelandair hefur gefið út í inneignir samsvarar um fjórðungi af öllum farþegatekjum Icelandair á öðrum ársfjórðungi í fyrra.