Átta umsækjendur eru um tvö embætti dómara við Hæstarétt Íslands, sem auglýst voru til umsóknar 10. júlí síðastliðinn. Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir báðust lausnar frá dómstólnum fyrr í sumar.
Umsóknarfrestur um embættin tvö rann út í fyrradag, 27. júlí. Eftirfarandi einstaklingar sækjast eftir þeim:
- Aðalsteinn E. Jónasson, dómari við Landsrétt
- Ása Ólafsdóttir, prófessor
- Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari
- Björg Thorarensen, prófessor
- Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt
- Jóhannes Rúnar Jóhannsson, lögmaður
- Oddný Mjöll Arnardóttir, dómari við Landsrétt
- Þorgeir Ingi Njálsson, dómari við Landsrétt.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að skipað verði í embættin hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hafi lokið störfum.
Miklar breytingar eru að verða á samsetningu æðsta dómstóls Íslands, en þegar búið verður að skipa í embættin tvö sem nú eru laus munu fjórir af sjö dómurum réttarins hafa verið skipaðir frá því í desember 2019, þar af þrír á þessu ári.
Fimm dómarar hafa í heildina hætt störfum, en í fyrra var ákveðið að fækka dómurum úr átta í sjö eins og staðið hafði til frá því að Landsréttur tók til starfa.
Á mánudag var greint frá því að Benedikt Bogason hefði verið kjörinn forseti Hæstaréttar og Ingveldur Einarsdóttir varaforseti dómstólsins á fundi dómara sem þá fór fram. Þau taka við stöðunum 1. september.
Aðrir dómarar við réttinn, sem sitja munu áfram, eru Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson. Ólafur Börkur er sá dómari við Hæstarétt sem setið hefur lengst, en hann var skipaður í embætti árið 2003. Næstur honum í reynslu af dómstörfum við réttinn er Benedikt Bogason, sem skipaður var árið 2012.