Ragnar Þór Ingólfsson segir að samantekt á málefnum Icelandair, Landssímareits og Lindarvatns sem hann vann ásamt lögfræðingum sínum kalli á óháða rannsókn á málinu í heild sinni. Samantekt Ragnars var birt á Kjarnanum fyrr í dag. Ragnar hafði fyrr í vikunni gefið það út að hann ætlaði að senda frá sér yfirlýsingu sem hann var þá að vinna að í samvinnu við lögmenn sína, í henni áttu að koma fram nýjar upplýsingar um málið.
Skilmálabreyting skuldabréfa
Í samantekt sinni bendir Ragnar meðal annars á að í mars síðastliðnum hafi skuldabréfaeigendur LIND 16 1, sem er skuldabréfaflokkur sem Lindarvatn ehf. gaf út í mars 2016, samþykkt breytingar á skilmálum skuldabréfanna. Skuldabréfaeigendur veittu Íslandsbanka hf. einnig veðleyfi og leyfðu þinglýsingu á tryggingarbréfi að fjárhæð um 1,7 milljarða króna á fyrsta veðrétti, sem sagt fram yfir veðrétt skuldabréfaeigenda.
Tryggingarbréf að fjárhæð um 1,7 milljarða var gefið út þann 22. maí síðastliðinn þar sem Íslandsbanki lofaði að lána Lindarvatni 1.750 milljónir króna til að fjármagna uppbyggingu Lindarvatns á Landssímareit. Þetta nýja lán fékk því 1. veðrétt.
Segir rekstur félagsins í uppnámi
Samþykki skuldabréfaeigenda er háð skilmálum sem finna má í fundargerð frá fundinum samkvæmt samantekt Ragnars. Einn af skilmálunum segir til um í hvað nota eigi lánið frá Íslandsbanka. Það skuli notað til að greiða eftirstöðvar framkvæmdakostnaðar, til að endurgreiða brúarlán frá Icelandair Group að fjárhæð 355 milljónir króna, til að greiða afborganir og vexti af LIND 16 1 á framkvæmdatíma og til að greiða almennan rekstrarkostnað. Aðrir skilmálar eru svo sem bann við arðgreiðslu, vanskil og fleira en tilkynning um skilmálabreytinguna hefur ekki verið birt í verðbréfamiðstöð.
Ragnar segir að samkvæmt þessum upplýsingum megi vera ljóst „að verkefni Lindarvatns á Landssímareit var í uppnámi í mars 2020.“
Óskar upplýsinga um „neyðarlán“ frá Icelandair
Í kjölfarið óskar Ragnar eftir upplýsingum um hvenær og á hvaða kjörum Icelandair Group hafi samþykkt að lána Lindarvatni „neyðarlán“ að fjárhæð 355 milljónir króna. Þá bendir hann einnig á það að í ársreikningi Icelandair Group fyrir árið 2019 komi fram að kröfur félagsins á Lindarvatn hafi numið 9,3 milljónum dala, eða um 1,1 milljarði króna. Sú tala hefði hækkað frá fyrra ári þegar krafan var 1,6 milljónir dala, eða um 185 milljónir króna.
Þá segir í lok umfjöllunar um skilmálabreytingu skuldabréfa: „Miðað við framangreinda skilmálabreytingu skuldar félagið nú a.m.k. 3.500 milljónir kr. meira en upphaflegar áætlanir, sem stjórn Lindarvatns og framkvæmdastjóri lögðu til grundvallar í febrúar 2016. Þá verður skilmálabreytingin ekki skilin með öðrum hætti en að félagið hafi þurft á neyðarláni að halda frá Icelandair að fjárhæð 355 m.kr. vegna stöðu félagsins.“
Svarar yfirlýsingum framkvæmdastjóra og Halldórs og Davíðs
Ragnar nýtir einnig tækifærið í greininni til þess að svara annars vegar yfirlýsingu frá núverandi framkvæmdastjóra Lindarvatns ehf, Jóhannesi Stefánssyni, sem birtist á fésbókarsíðu hans fyrr í mánuðinum og hins vegar fréttatilkynningu þeirra Halldórs Davíðs Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), og Davíðs Þorlákssonar, forstöðumanns samkeppnishæfnisviðs SA, sem birtist á vef SA síðastliðinn laugardag.
„Framkvæmdastjóri Lindarvatns lét eins og félagið sigldi lygnan sjó og vék sér undan því að fjalla um viðbótarlántöku Lindarvatns frá hluthafa, neyðarlánið frá Icelandair og gerði yfirhöfuð engar efnislegar athugasemdir við fullyrðingar mínar um stöðu félagsins og verkefnisins,“ segir Ragnar.
„Enn er spurningum ósvarað“
Í síðasta hluta samantektar sinnar tekur Ragnar saman nokkrar spurningar sem honum finnst vera ósvarað: „sumar hafa komið áður fram og aðrar sem eru nýjar, sem aldrei hefur verið svarað, hvorki af Lindarvatni, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjóra Lindarvatns eða þeim sem að viðskiptunum komu. Þess í stað hafa aðilar gefið yfirlýsingar án þess að svara kjarna málsins,“ segir þar.Þá gerir Ragnar ráð fyrir því að fjarfestar geri kröfu að upplýsingar verði opinberaðar fyrir þátttöku í fyrirhuguðu hlutafjárútboði. „Samantekt þessi hlýtur að kalla á óháða rannsókn á málinu í heild sinni. Hvernig getur virði Lindarvatns hækkað úr 934 m.kr. í 3.800 m.kr. á 8 mánuðum? Hverjar voru forsendur viðskiptanna? Hver er skuldbinding IG vegna leigusamnings um fasteignir á Landssímareit? Fjárfestar hljóta að gera kröfu um að allar upplýsingar um þetta mál verði opinberar áður en þeir taka þátt í hlutafjárútboði.“