„Við höfum ákveðið að gera framkvæmdahlé á svæðinu sem hefur verið kært og fara yfir möguleikana,“ segir G. Pétur Matthíasson, samskiptastjóri Vegagerðarinnar við Kjarnann spurður út í viðbrögð stofnunarinnar við kæru Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN. Hann segir að einnig hafi verið ákveðið að lækka veginn, sem gagnrýni náttúruvernarfólks hefur meðal annars beinst að, og hafi það verið gert til að bregðast við óskum þjóðgarðsvarðar.
Svæðið sem um ræðir er nú innan Vatnajökulsþjóðgarðs en hefur verið þjóðgarður síðan 1973.
Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi sendu fyrir helgi kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem þess var krafist að vegaframkvæmdirnar í Vesturdal og við Hljóðakletta yrðu stöðvaðar. Gerðu samtökin „alvarlegar athugasemdir varðandi verklag í kringum framkvæmdaleyfi og umhverfismat og gera kröfu um að betur sé að gætt þegar um svo dýrmætan stað er að ræða“.
Um er að ræða framkvæmdir á hluta Dettifossvegar en sú framkvæmd fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum árið 2006. Stjórn SUNN telur hins vegar eðli þeirra framkvæmda sem staðið hafa yfir í sumar ekki í samræmi við hið fjórtán ára gamla umhverfismat. „Þá kom skýrt fram af hálfu þjóðgarðsyfirvalda að vegabótum um Vesturdal skyldi haldið lágstemmdum til að standa vörð um þá einstöku kyrrð og náttúrufegurð sem einkennir tjaldstæðið í Vesturdal sem vegurinn liggur um. Þess í stað skyldi mæta aukinni umferð með aðkomu að svæðinu upp á Langavatnshöfða, fyrir ofan Hljóðakletta og Vesturdal. Þar er gert ráð fyrir bílastæði fyrir rútur og þá ferðalanga sem staldra [skemur] við en geta notið svæðisins án þess að trufla þá kyrrð sem ríkir í Vesturdal,“ sagði í tilkynningu þeirra um kæruna fyrir helgi.
G. Pétur segir að Vegagerðin hafi haldið fund með kærendum og þjóðgarðsverði á föstudag og að sömu aðilar hafi svo farið í vettvangsferð í gærmorgun.
„Það eru Vegagerðin, Vatnajökulsþjóðgarður og Norðurþing sem eru kærð og við munum í kjölfarið setjast saman yfir málið og skoða möguleikana en vegurinn sem um ræðir er byggður á sama stað og vegurinn sem fyrir var, og síðan er um að ræða tvö plön,“ segir G. Pétur.