Íþróttahreyfingin í landinu hefur verið beðin um að slá öllu keppnishaldi þeirra sem fæddir eru 2004 eða fyrr á frest til 10. ágúst. Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar á blaðamannafundi stjórnvalda í Safnahúsinu í dag, þar sem kynntar voru mjög hertar sóttvarnaráðstafanir innanlands vegna hópsmits COVID-19.
Knattspyrnusamband Íslands segir á Twitter að varðandi COVID-19 mál, framhald móta og annað sé að mörgu að hyggja og að KSÍ sé í sambandi við hagsmunaaðila, ákvarðanir verði teknar og gefnar út eins fljótt og hægt er.
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ segir enn fremur við Fótbolta.net í dag að KSÍ sé að afla sér frekari upplýsinga, meðal annars um það hvort íþróttalið fullorðinna geti verið með æfingar eftir að hertar aðgerðir taka gildi á hádegi á morgun.
Fram hefur komið að tveggja metra reglan verði tekin upp að nýju og að hún verði nú skylda í samskiptum fullorðinna, ótengdra einstaklinga. Í minnisblaði sóttvarnalæknis er lagt til að hertar aðgerðir standi yfir í tvær vikur frá og með morgundeginum, eða til 13. ágúst.
Sérstaklega er kveðið á um að starfsemi sem krefjist notkun sameiginlegs búnaðar, þar á meðal íþróttastarf, verði stöðvuð tímabundið eða að passað verði upp á að búnaðurinn verði sótthreinsaður á milli notenda.
Varðandi Covid-19 mál, framhald móta og annað. Það er að mörgu að hyggja og margt að skoða. KSÍ er í sambandi við hagsmunaaðila. Ákvarðanir teknar og gefnar út eins fljótt og hægt er.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) July 30, 2020