Af þeim þrettán sem greindust í gær voru tólf ekki í sóttkví. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þetta þýðir að síðan 30 ágúst hafa fjórir af þeim 31 sem greinst hafa verið í sóttkví.
Tveir af þeim einstaklingum sem greindust í gær voru á Norðurlandi en hinir ellefu voru á höfuðborgarsvæðinu. Í landinu eru 72 virk smit og eru smit í öllum landshlutum nema á Austurlandi. Það er áhyggjuefni að smitin séu dreifð að mati Þórólfs, það gæti bent til þess að dreifing veirunnar sé meiri en áður var talið. Næstu dagar muni skera úr um það hversu mikil dreifingin er en það tekur um eina til tvær vikur að sjá árangur af þeim hertu aðgerðum sem gripið var til á föstudag.
Fólk ekki að virða tveggja metra regluna
Almannavarnir hafa fengið margar ábendingar um að fólk sé ekki að virða tveggja metra regluna, til að mynda í verslunum, kvikmyndahúsum, á sundstöðum og veitingahúsum svo dæmi séu tekin. Alma vildi því brýna fyrir fólki að fylgja fyrirmælum. „Það er gríðarlega mikilvægt að virða alla þessa þætti nú. Við viljum ná utan um þessi smit þannig að við verðum ekki í verri stöðu um miðjan ágúst þegar svo margt er að fara í gang, meðal annars skólar,“ sagði Alma.
„Við höfum alltaf sagt að það er margt sem við vitum ekki. En við vitum þó að það sem skiptir máli það er ekki að reglurnar séu nógu harðar. Heldur að þær séu þannig að fólk virði þær og fari eftir þeim. Og það er úti í samfélaginu sem að smitvarnir eiga sér stað, það er ekki á skrifstofum okkar,“ bætti Alma við eftir að hafa minnt á að veiran er til alls líkleg líkt og dæmin sanna í öðrum löndum.
Íslensk erfðagreining skimar á Akranesi
Í skimunum Íslenskrar erfðagreiningar hafa tveir greinst jákvæðir af þeim 2.500 sem hafa farið í skimun hjá ÍE. Þórólfur sagði það benda til þess að smit sé ekki útbreitt en ÍE mun halda áfram að skima og skimar nú á Akranesi.