Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, sem fram átti að fara 22. ágúst, hefur verið aflýst. Íþróttabandalag Reykjavíkur, sem heldur hlaupið, segir að ekki hafi verið útlit fyrir að mögulegt yrði að láta hlaupið fara fram og uppfylla um leið hertar sóttvarnaráðstafanir sem tóku gildi 31. júlí.
„Þar sem að undanförnu hafa komið fram sýkingar í samfélaginu og framhaldið hvað það varðar mjög óljóst kjósum við að sýna ábyrgð og setja ekki þátttakendur í óþarfa áhættu. Framundan er viðkvæmur tími þar sem skólahald er að hefjast sem og vetraríþróttastarf að fara í gang og því skynsamlegt að auka ekki hættu á smiti með stórum viðburði,“ segir í tilkynningu til þeirra sem ætluðu að taka þátt.
Þar segir einnig að leitað verði leiða til þess að halda áheitasöfnun í tengslum við hlaupið áfram og minnka skaðann fyrir alla, en að það verði kynnt nánar á næstu dögum. Á síðasta ári var sett áheitamet þar sem söfnuðu söfnuðu hlauparar 167.483.404 krónum til 181 góðgerðarfélaga.
Allar skráningar í hlaupið verða færðar fram um eitt ár, til 21. ágúst 2021, en hlauparar sem þess óska geta fengið endurgreiðslu ef þeir ætla sér ekki að taka þátt að ári.
„Það er vissulega vonbrigði að geta ekki haldið Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem hefur farið fram á hverju ári í 36 ár. Við hvetjum ykkur til að halda áfram að æfa og kynna ykkur dagsetningar á hlaupaviðburðum okkar árið 2021,“ segir í tilkynningunni.