Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ýmislegt jákvætt hægt að tína til um stöðu faraldurs COVID-19. Færri ný smit hafi greinst í gær og fyrradag en dagana þar á undan og þá hafi tveir af þeim þremur sem greindust í gær verið í sóttkví. Meðal þeirra 83 sem nú eru sýktir séu alvarleg veikindi sjaldgæf. Einn liggur á sjúkrahúsi og sá er ekki á gjörgæsludeild.
En að hans mati er of snemmt að fagna sigri. Enn þurfi að líða nokkrir dagar áður en hægt sé að slá einhverju föstu um árangur af aðgerðum sem teknar voru upp fyrir síðustu helgi. Ekki þurfi mikið útaf að bregða til að litlar hópsýkingar blossi upp.
Þetta var meðal þess sem fram kom í máli sóttvarnalæknis á fundi almannavarna og landlæknis í dag. Eitt helsta áhyggjuefnið í dag er að mati Þórólfs það hvernig hægt sé að miða fjölda farþega sem hingað koma við þá sýnatökugetu sem við búum yfir. Stjórnvöld séu þessa stundina að skoða hvaða leiðir megi fara til að takmarka fjölda ferðamanna til landsins svo hægt sé að anna þeim sem hingað koma.
Hann sagði það sitt mat að halda ætti áfram að skima við landamærin til að lágmarka hættuna á því að veiran komist inn í landið. Ef fara ætti aðrar leiðir yrði áfram að gæta að hraða og öryggi sem væri örugglega ekki auðvelt. „En það er þá annarra að ákveða það og bera ábyrgð á því.“
Að mati Þórólfs er ekki ástæða eins og staðan er í dag til að grípa til enn harðari aðgerða. Hins vegar væru yfirvöld í startholunum að gera það ef endurskoðunar gerðist þörf.
Hann minnti á að reynslan sýndi að hlutirnir breyttust oft mjög fljótt. Eina stundina stæði til að aflétta takmörkunum en þá næstu væri komið að því að herða þær. „Við verðum að taka þetta frá degi til dags. Þannig verður það áfram. Ég veit að það er mjög óþægilegt að geta ekki skipulagt sig fram í tímann og þannig er það líka hjá okkur. Ég vildi að veiran gæfi okkur færi á því að skipuleggja okkur lengra fram í tímann en þannig er staðan hvað hana varðar.“
Ný staða
„Eins og ég hef margt oft sagt áður erum við á öðrum stað núna en í vor er allir voru samstíga í að kveða þessa veiru niður með öllum tiltækum ráðum,“ sagði hann um framhaldið næstu mánuði. „Nú erum við að sjá aðeins betur fram í tímann og það er algjörlega ljóst að við þurfum að lifa með þessari veiru. Hún er í sókn alls staðar í heiminum. Í vor var maður að vona að það væri farið að sljákka í henni alþjóðlega séð í haust en það er alls ekki að gerast. Við erum ekki að fá bóluefni, einhverja lausn á því að búa til ónæmi hérna í samfélaginu. Þá þurfum við að ákveða hvernig við ætlum að lifa með veirunni til framtíðar og á sama tíma að láta samfélagið rúlla eins vel og eðlilega eins og hægt er og taka þá tillit til efnahagslegra þátta og annarra þátta.“
En Þórólfur sagði það ekki verkefni sóttvarnalæknis. Hans hlutverk væri að einbeita sér að sóttvarnasjónarmiðum og það myndi hann áfram gera. „Ef við sjáum fram á það að þurfa að lifa með veirunni næstu mánuði og ár þá þurfum við að vita hvernig við ætlum að haga okkar vörnum og á sama tíma að láta aðra hluti í samfélaginu snúast eins vel og mögulegt er.“
Því sagðist Þórólfur hafa kallað eftir því að sjónarmið annarra kæmu nú að borðinu í ákvarðanatökunni. „Ég held að það sé komið að stjórnvöldum að koma meira inn í það.“