Stjórnvöld gerðu mistök með því að opna landið fyrir ferðamönnum um miðjan júní og ofmátu kosti þess að opna landið, en vanmátu þá hættu sem slík opnun skapaði fyrir efnahagslífið. Ekki hafi verið gerð heildstæð athugun á efnahagslegum áhrifum opnunarinnar við undirbúning hennar. „Með ákvörðunum sínum um opnun landsins hafa stjórnvöld stefnt mikilvægum almannagæðum í hættu sem eru þau gæði að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki, unnið með öðru fólki og verslað við annað fólk. Og þar með er efnahag landsins einnig stefnt í hættu.“
Þetta segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, í grein sem hann birti í nýjasta tölublaði Vísbendingar sem barst áskrifendum í gær.
Hagsmunir fárra
Gylfi hélt erindi á málþinginu „Út úr kófinu“ sem haldið var í hátíðarsal Háskóla Íslands í byrjun júní. Þar sagði hann meðal annars að hagkerfið myndi ná sér á strik þótt að fjöldi ferðamanna myndi ekki koma til landsins, svo fremi sem að annar faraldur kórónuveiru myndi ekki skella á síðar á árinu. „Góður árangur í sóttvörnum í vor hefur skapað almannagæði sem bæta lífskjör og örva hagvöxt.“
Hann sagði enn fremur að það að bíða með opnun landamæra hefði gildi. Hagsmunir fárra, þeirra sem starfa í ferðaþjónustu, mættu ekki verða til þess að heilsu og afkomu annarra væri stefnt í hættu.
Þeir sem tapa eiga sér ekki málsvara
Í grein sinni í Vísbendingu segir Gylfi að sum þeirra raka sem færð hafi verið fyrir því að opna landið að nýju hefðu verið rökleysur eins og „það gengur ekki að hafa landið lokað“ eða „efnahagslífið nær sér ekki á strik í lokuðu landi“.
Hann segir að talsmenn ferðaþjónustu hafi haldið uppi mjög öflugum málflutningi um að opnun væri bráðnauðsynleg, ella blasti, réttilega í mörgum tilvikum, við gjaldþrot fyrirtækja. Minna hafi hins vegar farið fyrir umræðu um hætturnar sem fælust í opnuninni. „Engan málsvara var að finna fyrir þá sem mestu hafa að tapa ef veiran tekur að dreifa sér um samfélagið að nýju; nemendur í framhaldsskólum og háskólum, eldri kynslóðina, starfsfólk og viðskiptavini í þjónustugeiranum sem er stærsti hluti efnahagslífsins, og almenning sem var mikið létt þegar sóttin hafði verið kveðin niður í júní. Af fréttaflutningi má ráða að svo til einu hagsmunirnir sem skipta máli séu hagsmunir ferðaþjónustu. Þessi áhersla kemur glöggt fram í greinargerðum fjármála- og efnahagsráðuneytisins í júní og stýrihóps um afnám ferðatakmarkana í maí. Sjaldan hefur verið augljósar hversu mikil áhrif ein atvinnugrein getur haft á ákvarðanir stjórnvalda.“