„Þegar þjóðfélag okkar stendur frammi fyrir einhverju alvarlegasta vandamáli lýðveldistímans þá er mikilvægt að leyfa mismunandi sjónarmiðum að koma fram og ráðamenn þurfa að sýna ábyrgð með því að bregðast við umræðu í samræmi við embætti þeirra og ábyrgð.“
Þetta segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann svarar gagnrýni Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, á skrif hans í Vísbendingu í lok síðustu viku. Gagnrýni Þórdísar var sett fram í pistli hennar í Morgunblaðinu.
Gylfi segir í svargrein sinni að hann leggi það ekki í vana sinn að skrifast á við stjórnmálamenn. Hann hafi reyndar aldrei gert það áður og muni vonandi ekki þurfa að gera það aftur, en í ljósi alvarleika máls finnist honum rétt að benda á nokkur atriði.
Hann rekur svo innihald greinar sinnar í Vísbendingu, sem vakti mikla athygli þegar hún birtist á föstudag, en þar færði Gylfi efnahagsleg rök fyrir því að það hefðu verið mistök að opna landið meira um miðjan júní. Með því hafi stjórnvöld stefnt mikilvægum almannagæðum í hættu og tekið hagsmuni fárra, ferðaþjónustunnar, fram yfir hagsmuni þorra landsmanna.
Ásættanleg áhætta að mati ráðherra
Þórdís svaraði um helgina og sagði gagnrýni Gylfa, og annars hagfræðings Þórólfs Matthíassonar, slá sig „svolítið eins og að fagna góðu stuði í gleðskap á miðnætti án þess að hugsa út í hausverkinn að morgni.“
Hún bætti við, í samtali við RÚV á laugardag, að áhættan af því að skima og hleypa fólki inn í landið væri lítil og að hún gæti ekki fallist á þau rök að hún sé svo mikil að það ætti að loka landinu og ekki hleypa fólki inn. „Þannig að áhættan er í mínum huga ásættanleg.“
Tveir valkostir
Gylfi í grein sinni í dag að það sé skiljanlegt að vilji sé til staðar til að liðka fyrir komum erlendra ferðamanna til þess að bjarga fyrirtækjum í ferðaþjónustu og minnka atvinnuleysi. „En þeir sem taka ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar verða að hafa heildarhagsmuni skýra. Ekki má horfa fram hjá þeim mikla efnahagslega skaða sem verður ef farsóttin herjar á samfélagið í vetur. Efnahaglegt tap af völdum farsóttar innan lands getur verið mikið eins og sést í mörgum nálægum ríkjum.“
Hann rifjar upp viðbrögð annarra þjóða við faraldinum. Annað eyríki, Nýja-Sjáland, hafi til að mynda ákveðið að nota sérstöðu sína til þess að hafa strangar sóttvarnir á landamærum og vernda þannig innlent hagkerfi og samfélag uns lyf og bóluefni koma til hjálpar. „Í nágrenni okkar mælir utanríkisráðuneyti Noregs, svo dæmi sé tekið, með því að Norðmenn ferðist ekki til útlanda nema brýnustu nauðsyn beri til.“
Að hans mati eru valkostir Íslendinga tveir: Öflugar sóttvarnir við landamæri líkt og Nýsjálendingar hafa gert og sóttvarnir sem eru minna hamlandi á efnahagsstarfsemi innan lands, eða takmarkaðar sóttvarnir við landamæri og miklar sóttvarnir innan lands eins og nú virðist stefna í. „Ef ráðamenn eru að horfa á neyslu, atvinnustig og stöðu ríkissjóðs þá þarf ekki hagfræðing til að benda á að fyrri kosturinn gæti komið betur út. Hættulegt er að gera að einu hagsmuni ferðaþjónustu, annars vegar, og efnahagslífsins alls, hins vegar.“