Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hefur ekki enn svarað spurningum Kjarnans sem lúta að breyttri skráningu þriggja togara fyrirtækisins sem notaðir voru í starfsemi fyrirtækisins í Namibíu, þrátt fyrir að blaðamaður hafi í tvígang ítrekað fyrirspurnina sína síðan þá. Spurningarnar voru sendar 25. júlí.
Kjarninn sagði frá því þann sama dag að ýmist nöfnum eða skráningu togaranna Sögu, Geysis og Heinaste hefði verið breytt, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sem finna má í gagnagrunni vefsíðunnar Marine Traffic.
Er fyrirspurnin var ítrekuð í fyrra skiptið 28. júlí fengust þau svör frá Samherja að fyrirspurnin væri móttekin og væri til skoðunar þar innanhúss. Aftur var fyrirspurnin ítrekuð þann 6. ágúst en engin svör hafa borist síðan.
Tvö sigldu frá Namibíu fyrr á árinu
Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóra Samherja, fjallaði um stöðu Sögu og Geysis í færslu á vef Samherja 6. febrúar. Þá sagði hann að Saga væri á leið í slipp vegna tímabærs viðhalds og að Geysir væri við veiðar við strendur Máritaníu þar sem ekkert af dótturfyrirtækjum Samherja hefði fengið kvóta fyrir skipið í Namibíu.
Dagana á undan höfðu namibískir fjölmiðlar greint frá því að namibíska spillingarlögreglan hefði lagt til við þarlend stjórnvöld að togurunum yrði ekki leyft að sigla úr landi án þess að lögreglu yrði gert viðvart, og því að skipverjar hefðu fengið boð um að sækja eigur sínar í togarana með litlum fyrirvara.
Í sömu færslu sagði forstjórinn einnig að allar ákvarðanir, sem tengdust því að Samherji væri að hætta rekstri í Namibíu, yrðu teknar í nánu samráði við þar til bær stjórnvöld. „Greint verður opinberlega frá framvindu málsins jafnóðum,“ sagði Björgólfur.
Samkvæmt vef Marine Traffic hefur ekki fengist staðsetningarmerki á Sögu, sem nú virðist heita Vasiliy Filippov, síðan 24. júlí þegar skipið var statt í Las Palmas á Kanaríeyjum, en Geysir, sem nú heitir Galleon, er enn við veiðar í lögsögu Máritaníu.
Nokkrar spurningar
Spurningar Kjarnans, sem Samherji hefur enn ekki svarað, lúta að því hvort einhverjar breytingar hafi orðið á eignarhaldi skipanna og af hverju ýmist nöfnum þeirra eða skráningarlandi hefði verið breytt, en öll skipin þrjú eru nú skráð undir belísku flaggi samkvæmt vef Marine Traffic.
Þá spurði blaðamaður einnig hvort útlit væri fyrir að þessi skip myndu halda aftur til veiða í namibískri lögsögu, en það verður þó að teljast afar ólíklegt þar sem Samherji segir nú að félög tengd sjávarútvegsfyrirtækinu hafi hætt starfsemi í Namibíu á árinu 2019.
Einnig spurði blaðamaður fyrirtækið tíðinda af kyrrsetningarmáli Heinaste og hvort eitthvað hefði gengið að fá þeirri ákvörðun namibískra yfirvalda hnekkt, en 7. febrúar var togarinn kyrrsettur á grundvelli ákvæða namibískra laga um skipulagða glæpastarfsemi, einungis tveimur sólarhringum eftir að fyrri kyrrsetningu skipsins vegna brota á fiskveiðilöggjöfinni hafði verið aflétt.
„Við teljum að endurnýjuð kyrrsetning skipsins standist ekki namibísk lög og við munum grípa til ráðstafana til að hnekkja henni fyrir namibískum dómstólum ef nauðsyn krefur,“ sagði forstjóri Samherja í yfirlýsingu á vef sjávarútvegsfyrirtækisins 10. febrúar, en síðan hefur lítið heyrst af stöðu málsins.