Frjáls fjölmiðlun ehf., útgáfufélag DV og tengdra miðla, tapaði 317,6 milljónum króna í fyrra, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Alls tapaði félagið 601,2 milljónum króna frá því að það keypti fjölmiðlanna haustið 2017 og fram að síðustu áramótum, eða 21,5 milljónum króna að meðaltali á mánuði.
Það var fjármagnað með vaxtalausu láni frá Novator, fjárfestingafélagi sem er að mestu í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Innborgað hlutafé á árinu 2019 var 120 milljónir króna en það hafði verið 190 milljónir króna árið áður. Alls nam hlutafé í félaginu 340,5 milljónum króna sem þýðir að um 900 milljónir króna hafa runnið inn í reksturinn í formi hlutafjár og vaxtalausra lána.
Frjálsri fjölmiðlun var svo rennt inn í Torg ehf., útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla, 1. apríl síðastliðinn. Skömmu síðar var aðkoma Novator að fjármögnun félagsins opinberuð.
Í ársreikningnum segir að mikil óvissa sé um faraldurs vegna COVID-19 veirunnar á rekstrarumhverfi, efnahagslíf og fjármálamarkaði hérlendis og um heim allan. „Ekki er hægt að sjá fyrir eða leggja mat á hver áhrif faraldursins muni verða á starfsemi félagsins en að mati stjórnar og framkvæmdarstjóra hafa ekki komið fram vísbendingar við undirritun ársreikningsins þess efnis að vafi kunni að leika á rekstrarhæfi félagsins.“
Leynd yfir fjármögnun
Frjáls fjölmiðlun hóf starfsemi í september 2017. Félagið keypti þá fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN var síðar sett í þrot.
Skráður eigandi að öllu hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun var félagið Dalsdalur ehf. og eigandi þess er skráður lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson.
Á fyrstu fjórum mánuðum starfseminnar tapaði félagið 43,6 milljónum króna. Á árinu 2018 jókst tapið umtalsvert og var um 240 milljónir króna. Samtals tapaði fjölmiðlasamstæðan því 283,6 milljónum króna á 16 mánuðum. Við það bætist 317,6 milljóna króna tap í fyrra sem þýðir að á 28 mánuðum tapaði Frjáls fjölmiðlun 601,2 milljónum króna.
Samkvæmt ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlar skuldaði samstæðan 657 milljónir króna í lok árs 2019. Þar af voru langtímaskuldir 560 milljónir króna við eigandann, Dalsdal. Þegar þær skuldir eru lagðar saman við innborgað hlutafé, sem var 340,5 milljónir króna alls, er ljóst að um 900 milljónir króna hafa runnið inn í reksturinn frá Dalsdal.
Eina eign Dalsdals er Frjáls fjölmiðlun og skuld þess við félagið. Aldrei var greint frá því hver það væru sem fjármagnaði Dalsdal í ársreikningnum né í tilkynningum til fjölmiðlanefndar.
Novator opinberað
15. maí 2020 greindi Kjarninn frá því að Novator ehf., félag sem er að stærstu leyti í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefði fjármagnað mikinn taprekstur Frjálsrar fjölmiðlunar frá eigendaskiptum árið 2017 og hefði þar með verið helsti bakhjarl fjölmiðilsins. Það gerði Novator með því að lána eigenda útgáfufélags fjölmiðlanna að minnsta kosti 745 milljónir króna vaxtalaust.
Það kom fram í samningum sem Samkeppniseftirlitið fékk afhent þegar það fjallaði um samruna Frjálsrar fjölmiðlunar og Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins og tengdra miðla, sem tilkynnt var um í desember 2019 og gekk formlega í gegn 1. apríl 2020 með afhendingu eigna og réttinda.
Samkeppniseftirlitið hafði óskað eftir umsögnum frá samkeppnisaðilum fjölmiðlafyrirtækjanna tveggja. Í áliti eftirlitsins sagði að þrír umsagnaraðilar hafi tjáð sig um samrunann og töldu fyrirhugaðan samruna ekki koma til með að hafa teljandi áhrif á samkeppni á þeim mörkuðum sem um væri að ræða. „Einn af þeim óskaði þó eftir því að Samkeppniseftirlitið setti það sem skilyrði fyrir samrunanum að upplýst yrði um raunverulega eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar. Leyndin yfir því hver raunverulegur eigandi þess sé valdi öðrum fjölmiðlafyrirtækjum miklum skaða og bjagi markaðsstöðu óhjákvæmilega.“
Samkeppniseftirlitið ákvað að taka tillit til þessa og krafðist þess að upplýst yrði hver það væri sem fjármagnaði rekstur Frjálsrar fjölmiðlunar. Hvorki Novator né Björgólfur Thor voru nokkru sinni skráðir á meðal eigenda Frjálsrar fjölmiðlunar.
Sameinast Torgi og mynduðu risa
Á fimmtudagskvöldið 13. desember 2019 greindi Kjarninn frá því að Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, væri að kaupa DV og tengda miðla af Frjálsri fjölmiðlun.
Útgáfufélögin staðfestu svo kaupin daginn eftir en í ársreikningnum segir að kaupin hafi verið samþykkt 6. desember 2019. Ástæðan fyrir kaupunum var sögð vera erfitt rekstrarumhverfi, en Frjáls fjölmiðlun hefur verið rekin með miklu lausu tapi frá því að félagið var stofnað til að kaupa DV og tengdra miðla árið 2017.
Með kaupunum á DV og tengdum miðlum er Torg, sem tók líka yfir sjónvarpsstöðina Hringbraut og tengda miðla í fyrra, orðið að einu stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins.
Torg tapaði 212 milljónum króna á síðasta ári eftir að hafa skilað 39 milljóna króna hagnaði árið 2018. Stærsti eigandi Torgs er Helgi Magnússon fjárfestir, sem á 82 prósent í samstæðunni.