1. Einar spáði svölu sumri
Sumardagurinn fyrsti kom upp á 23. degi aprílmánaðar í ár. „Það eru ívið meiri líkur á því en minni að sumarið verði í svalara lagi,“ sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og ritstjóri Bliku.is, þann dag í samtali við Kjarnann er hann var beðinn um að rýna í langtímaspár til næstu þriggja mánaða. Hann sagði marga óvissuþætti uppi en að útlit væri að minnsta kosti fyrir gott vorveður.
2. Vorveðrið almennt gott
Spá Einars reyndist rétt því að maí reyndist óvenju þurr og sólríkur norðaustanlands. Hiti var alls staðar yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en um og yfir meðaltali síðustu tíu ára.
Meðalhiti í Reykjavík og á Akureyri var 0,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Hæsti hiti mánaðarins mældist 19,7 stig á Skjaldþingsstöðum þann 29. Mest frost í mánuðinum mældist -12,3 stig á Gagnheiði þann 10. Mest frost í byggð mældist -9,8 stig á Grímsstöðum á Fjöllum sama dag.
Þó nokkur snjór var á hálendinu en allautt allan mánuðinn bæði í Reykjavík og á Akureyri.
3. Hlýr júní (svona á íslenskan mælikvarða)
Almennt var hlýtt á landinu í júní og tíð hagstæð, að mati Veðurstofu Íslands. Þá er nú ekki verið að miða við Spánarhlýindi eins og margir Íslendingar eru sólgnir í en fáir fengu að njóta í ár. Með hlýindum í júní er átt við að meðalhiti var yfir meðallagi þó „ekki væru þau hlýindi afbrigðileg á neinn hátt,“ skrifaði Trausti Jónsson veðurfræðingur á bloggsíðu sína. „Samkeppnin á þessari öld er þó hörð – flestallir júnímánuðir eftir aldamót hafa verið hlýir,“ skrifar Trausti.
Hitanum var þó aðeins misskipt. Um landið norðaustan- og austanvert var mánuðurinn í „6. hlýjasta sæti á öldinni,“ eins og Trausti orðaði það, en suðvestanlands var svalara og hiti í „12. hlýjasta sæti“.
Meðalhiti í Reykjavík var 10,2 stig, 0,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 11,1 stig, 1,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára.
Júní var þó bjartari en margir nafnar hans síðustu áratugina. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 6,1 stund yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 222,4, sem er 45,8 stundum fleiri en í meðalári.
4. Hita- og kuldametin í júní
Hæsti hiti í júní mældist 24,2 stig á Mörk í Landi. Mest frost mældist -6,3 stig á Gagnheiði en mest frost í byggð mældist -4,6 stig á Reykjum í Fnjóskadal.
5. Júlí með þeim kaldari á öldinni
Júlí síðastliðinn fölnar í samanburði við sama mánuð í fyrra en það er varla réttlátur samanburður því þá var meðalhitinn 13,4 stig – sá mesti á öldinni.
Júlí í ár var fremur kaldur miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum þó að hiti hafi hins vegar verið nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Miðað við það sem verið hefur á öldinni, var hann ýmist næst kaldastur eða þriðji kaldastur síðustu 20 árin.
En hann var í raun alls konar. Um hann miðjan gekk illviðri yfir og vindhraðamet féllu, svo dæmi séu tekin. Einna hlýjast var um landið suðaustanvert, en hvað kaldast um landið norðanvert og norðaustanvert þar sem mánuðurinn var allvíða kaldari en júní.
Meðalhiti í Reykjavík var 10,7 stig, -1,3 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 10,1 stig og því -1,3 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára.
6. Þrettán frostanætur í júlí
Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,8 stig á Egilsstaðaflugvelli. Mest frost mældist -2,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum og í Miðfjarðarnesi. Á stöðinni á Dyngjujökli fór frostið mest -9,5 stig þann 25. „Ekki hefur sést meira frost á hitamæli á landinu í júlí,“ segir í samantekt Veðurstofu Íslands. Frostnætur urðu alls 13 í mánuðinum sem er óvenjulegt, en hins vegar var það aðeins á fáum stöðvum í senn, í ýmsum landshlutum.
En samt var hann svo bjartur og sólskinsstundirnar í Reykjavík voru til að mynda um þrjátíu fleiri en að meðaltali á árunum 1961 til 1990. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 187,8 og er það 29 stundum fleiri en í meðalári.
7. Blautur júní framan af
Vindur og úrkoma voru víðast hvar nærri meðallagi í júní á heildina litið en þegar litið er til tuttugu fyrstu daga mánaðarins kemur í ljós að úrkoma í Reykjavík hafi verið þá verið orðin hátt í 50 prósent umfram meðallag.
Þegar Veðurstofan gerði mánuðinn í heild upp kom í ljós að úrkoma í Reykjavík mældist 49,6 mm í júní sem er rétt undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist hún 31,1 mm sem er 10 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meira í Reykjavík voru 13, tveimur fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri í 10 daga sem er fjórum fleiri en í meðalári.
8. Úrkomumet í júlí
Úrkoma í Reykjavík mældist 44,7 mm í júlí, 14 prósent undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist hún 35,3 mm og er það rétt ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meira í Reykjavík voru 7,3 færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 6 daga, einum færri en í meðalári.
Mikil úrkoma féll um norðvestan- og norðanvert landið í hvassviðri um miðjan mánuð og féllu sólarhringsúrkomumet á fáeinum stöðvum. Vart varð við skriðuföll og ár urðu vatnsmiklar.
9. Meiri úrkoma – lægri hiti
Ef litið er til fyrstu sjö mánaða ársins 2020 var meðalhiti í Reykjavík 4,7 stig og því -0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 41. sæti á lista 150 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sjö 4,1 stig, -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 35. sæti á lista 140 ára. Úrkoman hefur hins vegar verið 13 prósent umfram meðallag í Reykjavík, en 30 prósent umfram meðallag á Akureyri.
10. Blautir dagar syðra – hlýir eystra
En sumarið er ekki búið. Hálfur ágústmánuður er eftir. Hann byrjaði reyndar sérdeilis vel austantil á landinu, þar sem hitinn hefur farið vel yfir 20 gráðurnar en var hins vegar votviðrasamur um hríð syðra.
Ef veðrið fyrstu tíu daga mánaðarins er skoðað, líkt og Trausti hefur nú gert á bloggsíðu sinni, kemur í ljós að meðalhitinn í höfuðborginni var -0,7 stigum neðan meðaltals sem skipaði honum í þriðja neðsta sæti ágústmánaða síðustu tuttugu ára hvað hlýindi varðar. Það sem af er öldinni voru dagarnir tíu kaldastir árið 2013, meðalhiti þá 10,4 stig, en hlýjastir voru þeir árið 2003, meðalhiti 13,5 stig.
Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu 1,4 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en 2,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.
Úrkoma í Reykjavík mældist 39,2 mm, nálægt tvöfalt meðallag, en 27,2 mm á Akureyri sem er meira en tvöfalt meðallag. Sólskinsstundir voru aðeins 12,1 í Reykjavík og hafa aðeins einu sinni verið færri fyrstu tíu daga ágústmánaðar. Það var árið 1916.
En skjótt geta veður skipst í lofti. Jafnvel í ágúst. Í gær var sólríkt suðvestanlands eftir rigningar dagana á undan. Og veðurspár næstu daga lofa góðu.