„Ég held að hún hafi ekki verið að brjóta lögin eins og þau segja nákvæmlega fyrir um en vissulega hefði mátt kannski passa betur upp á tveggja metra regluna þarna,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag um vinkonuhitting Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, sem fjallað var um um helgina.
Þórólfur var spurður að því hvort að Þórdís Kolbrún hefði brotið tveggja metra reglu um helgina. Hann sagði síðustu auglýsingu ekki endilega snúa að fólki sem ekki deilir heimili heldur hafi þar verið að finna kröfur til rekstraraðila, um að þeir geti boðið fólki upp á að viðhalda tveggja metra fjarlægð.
„Síðan er það náttúrlega á ábyrgð hvers einstaklings að halda þessa tveggja metra reglu eða ekki. Í þessu tilfelli án þess að ég geti nokkuð fjallað meira um það þá sýnir þetta bara það að fólk verður að bera ábyrgð á sínum athöfnum,“ sagði Þórólfur og bætti við að reglan ætti kannski frekar við um einstaklinga sem maður þekkir engin deili á.
Langþráður frídagur
Um helgina gerði Þórdís Kolbrún sér dagamun með vinkonum sínum. Fréttablaðið sagði frá samveru vinahópsins vegna þess að þar var tveggja metra reglan ekki í hávegum höfð. Í frétt Fréttablaðsins segir að hluti þeirra mynda sem birtist af hópnum á samfélagsmiðlum hafi nú verið eytt.
Þórdís Kolbrún brást við fréttaflutningnum með stöðuuppfærslu á Facebook í gær þar sem hún sagði frídaginn hafa verið langþráðan. Hún hefði hlakkað mikið til dagsins og hann hafi verið nærandi. „En dagurinn í dag síður og einfaldara hefði verið að ákveða að vera ekki með þeim,“ sagði Þórdís meðal annars í stöðuuppfærslu sinni. Hún sagði einnig að umfjöllunin hefði beinlínis verið röng, þær hafi ekki farið út á lífið eins og fullyrt var í fréttinni.
Í hádegisfréttum RÚV í dag sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, að hegðun Þórdísar hefði verið óheppileg. „Ég held að ráðherrann hafi svo sem svarað fyrir þetta að það hafi verið óheppilegt að það væri einhver vafi á um það hvort að öllum reglum væri fylgt,“ sagði Bjarni í hádegisfréttum.