Alls greindust tvö ný smit af kórónuveirunni innanlands í gær samkvæmt nýjustu tölum á covid.is. Í einangrun fækkar um fimm, nú eru 116 einstaklingar í einangrun en í gær voru þeir 121. Í sóttkví eru nú 528 einstaklingar en í gær voru 560 í sóttkví. Einn einstaklingur liggur á sjúkrahúsi vegna COVID-19 líkt og í gær.
Alls voru 158 sýni greind af sýkla- og veirufræðideild landspítala í gær. Hlutfall jákvæðra sýna var því tæplega 1,3 prósent.
Á landamærunum greindist enginn með staðfest virkt smit en níu einstaklingar bíða eftir mótefnamælingu. Á landamærunum var alls 2001 sýni tekið í gær. Í fyrradag höfðu aldrei verið tekin jafn mörg sýni á landamærunum en þá voru tekin alls 3191 sýni.
Frá því að fyrsta smitið var greint hér á landi í lok febrúar hafa 2014 greinst með COVID-19. Tíu hafa látist vegna sjúkdómsins hérlendis.