Lögreglan á Íslandi hefur nú heimild til þess að sekta einstaklinga um 10 til 100 þúsund krónur fyrir að vera ekki með grímu þar sem grímunotkun er skylda. Nýjar sektarheimildir vegna brota gegn sóttvarnalögum og reglum sem settar eru samkvæmt þeim tóku gildi 14. ágúst, samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara.
Þá er einnig komin inn heimild til þess að sekta forsvarmenn fyrirtækja fyrir að brjóta reglur um grímunotkun og geta þær sektir numið á bilinu 100 til 500 þúsund krónur. Nú hefur lögreglan einnig heimild til þess að sekta forsvarsmenn starfsemi eða skipuleggjendur samkomu um sömu upphæð ef að brotið er gegn þeirri skyldu að tryggja að hægt sé að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli einstaklinga sem deila ekki heimili.
Þetta eru helstu breytingarnar í nýju fyrirmælum ríkislögreglustjóra hvað sektarheimildir varðar, en þar er einnig að finna sektarheimildir á hendum einstaklingum sem brjóta skyldu varðandi veru í sóttkví eða einangrun, sem numið geta á bilinu 150 til 500 þúsund krónum.
Einnig er áfram hægt að beita sektum gegn bæði einstaklingum sem sækja samkomur þar sem of margir eru miðað við gildandi takmarkanir og líka skipuleggjendum slíkra samkoma.
Lögð áhersla á að meta hvert tilvik fyrir sig
Ríkissaksóknari segir í fyrirmælum sínum að lögð sé áhersla á að ákærendur meti hvert tilvik fyrir sig og ákvarði sektarfjárhæð með hliðsjón af alvarleika brots, en ljóst sé að brotin geti verið afar mismunandi og þar með misalvarleg.
Fyrsta sektin fyrir brot á sóttvarnalögum í heimsfaraldrinum var veitt hér á landi í aprílmánuði, en þá var um ræða einstakling sem hafði ekki farið í sóttkví eftir að hafa verið í útlöndum. Upp komst um brot hans þegar hann var handtekinn í miðborg Reykjavíkur fyrir að láta ófriðlega og sparka í bíla. Hann fékk 50 þúsund króna sekt.