Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, vill ekki afhenda kvittanir fyrir þeim vörum og þjónustu sem hún greiddi sjálf fyrir í vinkonuhittingi sem hún tók þátt í um helgina. Ein úr hópnum, Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, er í viðskiptasamstarfi við Hilton Nordica hótelið og vegna þess bauðst hópnum frír aðgangur að heilsulind og gisting á hótelinu.
Þórdís sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í gær að hún hefði greitt uppsett verð fyrir mat, drykk og aðgang að heitum pottum í hittingnum. Þá hefði hún ekki gist á hótelinu og gert hópnum „frá upphafi ljóst að ég myndi borga allan minn kostnað og gerði það. Ég bað ekki um nein sérkjör, hvorki þarna né annars staðar, og greiddi uppsett verð fyrir allt.“
Myndirnar gegna ekki hlutverki í verkefninu
Röð mynda birtist af vinkonuhópnum þar sem þær stóðu í hnapp. Myndirnar voru gagnrýndar bæði fyrir það að á þeim væri ráðherra ekki að virða tveggja metra reglu milli aðila sem deila ekki heimili og vegna þess að aðrar myndir í sömu myndaseríu voru merktar sem samstarf við Nordica.
Eva Laufey birti stöðuuppfærslu á Facebook í gærmorgun þar sem hún sagðist ekkert hafa ætlað að tjá sig meira um hittingin en að rangfærslur sem birtust í fjölmiðlum hefðu krafist þess. Þar lýsti hún deginum og sagðist alltaf hafa verið kýrskýr þegar hún ynni fyrir önnur fyrirtæki og merkti það með réttum hætti. „Þær myndir sem birtar voru af okkur vinkonunum tengjast samstarfinu ekki á neinn átt og höfðu þær engu hlutverki að gegna í verkefni mínu fyrir Nordica.“
Hún sagði það áhyggjuefni þegar fréttamiðlar færu með rangt mál og öllum væri velkomið að hafa samband. Blaðamaður Kjarnans hafði sambandi við Evu Laufeyju, meðal annars til að spyrja um hvernig greiðslutilhögun hefði verið í vinkonuhittingnum, en hún vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar eftir því var leitað.
Baðst afsökunar
Í stöðuuppfærslu sinni í gær sagði Þórdís að vegna fyrirspurna sem henni hefðu borist um þátttöku sína í deginum hefði hún óskað eftir að skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu legði mat á hvort í þessu máli fælist brot á siðareglum ráðherra.
Í áliti hennar, sem Þórdís birtir hluta úr, segir: „Eins og mál þetta er vaxið liggur ekkert fyrir sem bendir til þess að ráðherra hafi þegið slíkar gjafir, boðsferðir eða afslætti frá Icelandair Hotels eða öðrum umrætt sinn. Ráðherra naut þannig hvorki persónulegra fríðinda í krafti embættis síns né vegna umrædds samstarfs. Þá getur ráðherra ekki borið ábyrgð á því að aðrir gestir samsætisins hafi þegið slík fríðindi gegn því að birta kynningarefni á samfélagsmiðli. Loks skiptir hér máli að myndir af ráðherra sjálfri voru ekki merktar sem auglýsing eða samstarf, heldur er um að ræða aðrar myndir sem teknar voru sama dag. Miðað við þær forsendur sem hér er gengið út frá má því ætla að ekki sé um brot á siðareglum ráðherra eða öðrum reglum að ræða.“
Þórdís sagði að þrátt fyrir þessa niðurstöðu vildi hún árétta að ráðherrar eigi að haga gerðum sínum þannig að þær séu hafnar yfir vafa. „Ég gerði það ekki, biðst afsökunar á því og mun læra af því.“