Félag atvinnurekenda (FA) hefur kvartað til Samkeppniseftirlitsins (SKE) vegna niðurgreiðslu ríkisins á sumarnámi fyrr í sumar. Þetta kemur fram í frétt á vef FA en þar segir að verulegur hluti þeirra 500 milljóna sem veittar voru til sumarnáms á háskólastigi hafi runnið til endur- og símenntunarstofnana háskólanna og námskeið á þeirra vegum því niðurgreidd um tugi þúsunda króna. Fram kemur á vef FA að þessi starfsemi sé fyrir utan verksvið háskólanna eins og það er skilgreint í lögum og að viðkomandi starfsemi sé í beinni samkeppni við námskeið á vegum einkarekinna fræðslufyrirtækja.
Í framhaldi af fjárveitingunni hafi endurmenntunardeildir auglýst námskeið sem alla jafna kosti tugi þúsunda á þrjú þúsund krónur. Við þessi verð hafi keppinautar endurmenntunardeildanna ekki geta keppt.
Kvörtuðu til ESA fyrr í sumar
„Að mati FA er þessi útfærsla á styrkjum til sumarnáms ólögmæt og brýtur í bága við samkeppnisreglur. Félagið telur ríkisstyrkinn annars vegar brjóta gegn 61. grein samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ólögmæta ríkisaðstoð, enda veita félagsmenn FA í fræðslugeiranum sumir hverjir þjónustu í samstarfi við fyrirtæki sem staðsett eru í öðrum EES-ríkjum,“ segir í frétt FA en félagið kvartaði til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, fyrr í sumar.
Í fréttinni segir að FA fari einnig fram á að SKE skoði hvort starfsemi Endurmenntunar Háskóla Íslands samræmist samkeppnislögum. „Í reglum um EHÍ kemur fram að sé um að ræða útselda þjónustu, sem veitt sé í samkeppni við einkaaðila, skuli sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Engu að síður fari ekki á milli mála að áðurnefndri fjárveitingu til Háskóla Íslands vegna sumarnáms hafi að hluta verið ráðstafað beint til Endurmenntunar HÍ til að niðurgreiða námskeið, sem veitt eru í beinni samkeppni við einkaaðila,“ segir þar.
Einkaaðilar ósáttir við fjárveitinguna
Kjarninn fjallaði fyrr í sumar um fjárveitinguna sem um ræðir en hún er hluti af sumarúrræðum stjórnvalda fyrir námsfólk. Framkvæmdastjórar einkafyrirtækja á fræðslumarkaði sem Kjarninn ræddi við voru ósáttir við tilhögunina, þau geti ekki keppt við þau verð sem í boði voru hjá endurmenntunardeildunum.
„Okkur finnst þetta dálítið sérstakt, að það sé í raun og veru verið að halda þessu innan ríkisins. Eins og við horfum á þetta þá er auðvitað nógu erfitt að reka einkafyrirtæki með öllum þeim áföllum sem hafa dunið yfir síðustu mánuði,“ sagði Jón Jósafat Björnsson framkvæmdastjóri Dale Carnegie á Íslandi þá í samtali við Kjarnann og Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri hjá Þekkingarmiðlun, tók í sama streng.
Hún benti á að endurmenntunardeildir háskólanna væru að bjóða upp á námskeið sem að einhverju leyti sköruðust við framboð einkafyrirtækja á þessum markaði.
„Þetta eru meðal annars námskeið um jákvæða sálfræði, um breytingastjórnun og um árangursríka framkomu. Þetta eru allt námskeið sem einkaaðilar bjóða líka upp á. Nú er ég með framkomunámskeið og um teymisvinnu. Það er alveg ljóst að við sem einkaaðilar á fræðslumarkaði getum ekki keppt við þessi verð. Það er alveg ljóst að ég mun ekki bjóða upp á nein námskeið í jákvæðri sálfræði í bili,“ sagði Ingrid.