Stjórnvöld segja að hugað hafi verið sérstaklega að því að ríkisábyrgð á láni til Icelandair Group samrýmist reglum um ríkisaðstoð, enda eigi ráðstafanir hins opinbera ekki að fela í sér ótilhlýðilega röskun á samkeppni.
Ríkisábyrgð á 90 prósent af lánalínu til Icelandair Group upp á allt að 120 milljónir dala, sem er um 16,5 milljarðar króna á núverandi gengi, verður tengd með beinum hætti við tap sem er til komið vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á flugrekstur félagsins.
Með því tengja ríkisábyrgðina við tjón sem faraldurinn veldur á flugrekstrinum er stuðlað gegn ótilhlýðilegum áhrifum á aðra þætti félagsins, en Icelandair Group rekur einnig til dæmis ferðaskrifstofur, á fjórðungshlut í hótelkeðju og rekur vöruflutningafyrirtæki.
Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Spurningar um áhrif á samkeppni
Þann 18. ágúst var birt fréttatilkynning frá ráðuneytinu um ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair Group. Litlar upplýsingar voru um eðli ábyrgðarinnar í fréttatilkynningunni en fyrir liggur að hún þarf að samþykkjast af Alþingi áður en hún tekur gildi.
Icelandair Group samanstendur af sjö fyrirtækjum, og flest hver markaðsráðandi á sínu sviði innan ferðaþjónustunnar. Auk flugfélagsins Icelandair tilheyra samstæðunni ferðaskrifstofurnar Vita og Iceland Travel, innanlandsflugfélagið Air Iceland Connect, Loftleiðir Icelandic og Icelandair Cargo. Þá á Icelandair Group 25 prósent í hótel-keðjunni Icelandair Hotels.
Kjarninn sendi fyrirspurn á fjármála- og efnahagsráðuneytið um hvort að búið væri að leggja mat á hvort það standist íslensk og evrópsk samkeppnislög, sem Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja á grundvelli EES-samningsins, að ríkið sé að veita ríkisábyrgð á láni til samstæðu í fjölbreyttum samkeppnisrekstri.
Ákvörðun liggur fyrir fljótlega
Í svari ráðuneytisins segir að hugað hafi verið sérstaklega að því að hin fyrirhugaða ríkisábyrgð samrýmist reglum um ríkisaðstoð, sem meðal annars gera kröfu um að ráðstafanir hins opinbera feli ekki í sér ótilhlýðilega röskun á samkeppni. „Ábyrgðin sem ætlunin er að ríkissjóður veiti verður tengd með beinum hætti við tap sem er til komið vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á flugrekstur félagsins. Gert er ráð fyrir að sambærileg viðmið verði lögð til grundvallar útreikningi á tapi í flugrekstri og gert var í tengslum við ríkisábyrgð sem Svíþjóð og Danmörk veittu SAS nýlega (sjá ákvörðun og fréttatilkynningu). Með því tengja ríkisábyrgðina við tjón sem faraldurinn veldur á flugrekstrinum er stuðlað gegn ótilhlýðilegum áhrifum á aðra þætti félagsins.“
Í svarinu segir enn fremur að aðferðarfræðinni sem um ræðir verði frekar lýst í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna hinnar fyrirhuguðu ríkisábyrgðar, sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir fljótlega. Ákvörðun ESA verður birt á vef stofnunarinnar eftir að trúnaðarupplýsingar hafa verið afmáðar.