Fimm ný kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, þrjú af þeim sem greindust í gær voru þegar í sóttkví. Fjöldi einstaklinga í einangrun fækkar á milli daga, voru 117 í gær en eru 114 nú. Líkt og í gær liggur einn einstaklingur á sjúkrahúsi vegna COVID-19, þó ekki á gjörgæslu.
Aðeins hefur hægt á fjölgun einstaklinga í sóttkví. Í dag eru 989 í sóttkví en voru 919 í gær. 14 daga nýgengi fyrir innanlandssmit er nú 19,6 á hverja 100.000 íbúa. Það var 18,3 í gær og hefur hækkað dag frá degi síðan 20. ágúst þegar nýgengi var um 15.
Í landamæraskimun fóru alls 1750 einstaklingar í gær. Mótefnamælingar er beðið hjá fjórum einstaklingum sem fóru í skimun á landamærum í gær. Nýgengi smita á landamærunum er 11,2 á hverja 100.000 íbúa og lækkar frá því í gær en þá var það 12,3.
Ekkert smit hjá ríkisstjórninni
Í gærkvöldi var greint frá niðurstöðum úr síðari skimun níu ráðherra í ríkisstjórn Íslands og reyndust öll sýni þeirra neikvæð. Greint var frá því á föstudag að ákveðið hefði verið að nær allir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands þyrftu að fara í tvöfalda skimun og viðhafa smitgát á milli, eftir að nokkur kórónuveirusmit greindust daginn áður hjá einstaklingum sem dvöldu á Hótel Rangá. Ríkisstjórnin snæddi kvöldverð á hótelinu þriðjudaginn 18. ágúst, eftir að hafa haldið ríkisstjórnarfund á Hellu.
Í tilkynningu sem send var út á föstudag kom fram að ráðherrar ríkisstjórnarinnar teljist til „ytri hrings hins mögulega smithóps“ og séu því ekki hluti þess hóps sem auknar líkur eru á að hafi verið útsettur fyrir smiti.