Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fékk þau svör frá skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu í síðustu viku að ekki væri hægt að mæla með því að hún tæki þátt í viðburðum sem væru kynntir sem auglýsing eða samstarf við einkaaðila í framtíðinni, nema sú þáttaka leiddi af og samrýmdist embættisskyldum hennar.
Þetta kemur fram í áliti skrifstofu löggjafarmála, sem ráðherra bað sjálf um að legði mat á það hvort þátttaka hennar í samsæti, sem merkt var sem samstarf við Icelandair Hotels á samfélagsmiðlum, samrýmdist siðareglum ráðherra. Kjarninn fékk álitið afhent í dag og hægt er að nálgast það hér.
Samsætið, sem var á Hilton Nordica-hótelinu í Reykjavík, var töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum í síðustu viku. Helst var það af þeim sökum að það sýndi fram á að tveggja metra reglan svokallaða hafði verið sett óskýrt fram í skilaboðum yfirvalda til almennings, en einnig vakti það upp spurningar að vinkonur ráðherra höfðu þegið fríðindi gegn því að taka þátt í samstarfi með Icelandair Hotels á Instagram.
Eins og fram hefur komið sagði skrifstofa löggjafarmála, í áliti sínu, að miðað við þær forsendur sem hún hefði gengið út frá mætti ætla að ekki væri um brot á siðareglum ráðherra að ræða.
Ráðherra segist hafa greitt fyrir allt sitt
Við gerð álitsins var meðal annars gengið út frá því að ráðherra hafi greitt sjálf uppsett verð fyrir þá þjónustu sem hún naut, þrátt fyrir að hluti vinkvenna hennar hafi notið fjárhagslega góðs af samstarfinu, viðskiptasamningi, sem Eva Laufey Kjaran sjónvarpskona og áhrifavaldur var með við Icelandair Hotels.
Einnig sagði í álitinu að ráðherrann gæti ekki borið ábyrgð á því þótt aðrir gestir í samsætinu hefðu þegið fríðindi og að það skipti máli að myndir sem birtust af ráðherra á samfélagsmiðlum hefðu ekki verið merktar sem auglýsing eða samstarf, heldur einungis aðrar myndir frá sama degi.
Kjarninn sendi Þórdísi Kolbrúnu fyrirspurn og óskaði eftir því að fá að sjá kvittanir fyrir því sem ráðherrann greiddi. Í svari sem aðstoðarmaður hennar sendi Kjarnanum sagði: „Varðandi ósk um afhendingu reikninga/kvittana þá er það afstaða ráðherra að ekki sé hægt að ætlast til þess að persónuleg útgjöld séu opinber gögn; þau verða því ekki afhent.“
Baðst afsökunar
Þórdís Kolbrún birti sjálf brot úr áliti skrifstofu löggjafarmála á Facebook í síðustu viku, þar sem hún einnig baðst afsökunar á því að hafa ekki hagað gerðum sínum þannig að þær væru hafnar yfir vafa. „Ég gerði það ekki, biðst afsökunar á því og mun læra af því,“ skrifaði ráðherra.
Skrifstofa löggjafarmála segir í áliti sínu að af siðareglum ráðherra verði ráðið að ráðherra beri að forðast allt athæfi sem gefur til kynna að ráðherra notfæri sér stöðu sína í eiginhagsmunaskyni eins og frekast er unnt.
„Getur forsætisráðuneytið því ekki mælt með því að ráðherra taki þátt í viðburðum sem eru að einhverju marki kynntir sem auglýsing eða samstarf við einkaaðila í framtíðinni, nema um sé að ræða þátttöku sem leiðir af og samrýmist embættisskyldum ráðherra,“ segir í álitinu.