Embætti skattrannsóknarstjóra fékk nýlega upplýsingar um greiðslur til um 30 prósent þeirra aðila sem voru að leigja út eignir í gegnum AirBnB á Íslandi á árunum 2015 til 2018. Embættið fékk upplýsingar um greiðslur sem námu 25,1 milljarði.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir í samtali við Kjarnann að sú upphæð nemi 80 prósent heildargreiðslna sem bárust frá AirBnB til aðila hér á landi. Þær hafa því í heildina numið um 30 milljörðum króna á þessu fjögurra ára tímabili.
„Við erum ekki með þessa mörgu mjög smáu,“ segir Bryndís við blaðamann, en fyrr í dag var greint frá því að upplýsingarnar hefðu fengist frá AirBnB á Írlandi með aðstoð frá írskum skattyfirvöldum. Gögnin fengust ekki fyrr en eftir að sátt var gerð fyrir dómi um að afhenda þennan hluta gagnanna, segir Bryndís.
„Það er bara oft þannig með þessar erlendu beiðnir að þetta tekur heillangan tíma,“ segir Bryndís, en beiðni var formlega send bréfleiðis til AirBnB í upphafi árs 2019. Nú er embættið að fara yfir gögnin og greina þau og segir Bryndís að það líti ekki út fyrir að verða mjög flókin greiningarvinna.
„Það þarf bara að bera þetta saman við skattskilin [...] og ef það sé einhver grunur um undanskot þá væru einhver mál tekin til rannsóknar,“ segir Bryndís og bætir við að væntanlega verði starfinu forgangsraðað þannig að stærstu málin verði efst á blaði. Það sé venjan.
„En við erum ekki komin þangað. Við byrjum með autt blað, maður hugsar þetta þannig og kannski er þetta bara í lagi,“ segir Bryndís.
Aðspurð um hvað hæstu greiðslurnar til einstaka aðila nemi háum fjárhæðum segir Bryndís að embættið hafi ákveðið að halda þeim upplýsingum að sér, að sinni, enda sé enn verið að fara yfir gögnin, stemma þau af og púsla þeim saman.