Útlit er fyrir að samdráttur á öðrum ársfjórðungi ársins hafi verið sá mesti frá upphafi ársfjórðungslegra þjóðhagsreikninga. Þetta kemur fram í nýjum Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í dag samhliða stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar en nefndin ákvað að halda stýrivöxtum í einu prósenti.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að horfur fyrir seinni hluta ársins séu lakari heldur en spáð var í maí. Nefndin gerir hins vegar ráð fyrir að samdrátturinn á árinu öllu verði nokkru minni en þá var gert ráð fyrir. Þar vegur þyngst að einkaneysla var kröftugri í vor og sumar. Óvissan sé hins vegar óvenju mikil.
Gera ráð fyrir sjö prósenta samdrætti landsframleiðslu
Í Peningamálum kemur fram að talið sé að þjóðarútgjöld hafi dregist saman um átta prósent á öðrum fjórðungi ársins prósent milli ára. Við þetta bætist neikvætt framlag utanríkisviðskipta svo í heild er gert ráð fyrir að landsframleiðsla hafi dregist saman um tæplega ellefu prósent. „Gangi þetta eftir yrði það mesti samdráttur á einum ársfjórðungi frá upphafi ársfjórðungslegra þjóðhagsreikninga,“ segir í Peningamálum.
Þrátt fyrir metsamdrátt er hann minni en búist var við í maíspá Seðlabankans. Þá var gert ráð fyrir að samdrátturinn yrði tæplega 15 prósent. Í Peningamálum segir að það sem helst hafði áhrif á að samdráttur á fjórðungnum hafi ekki orðið jafn mikill og við var búist hafi verið neysluútgjöld heimila, Þau hafi ekki gefið eins mikið eftir á fyrri hluta ársins og óttast var í maí.
Horfurnar fyrir árið í heild eru einnig betri í nýjustu spá Seðlabankans heldur en í spánni frá því í maí. Búist er við því að samdráttur fyrir árið í heild verði sjö prósent en í maí var búist við því að samdrátturinn yrði átta prósent á árinu. Engu að síður eru horfir fyrir seinni hluta ársins lakari nú heldur en gert var ráð fyrir í maí. Ástæðan fyrir því er sú að faraldurinn hefur víða færst í aukana á ný.
Einkaneyslan niður um tíu prósent
Líkt og áður segir var samdráttur í einkaneyslu minni en spáð hafði verið fyrir um í maí. Talið er að einkaneysla hafi dregist saman um tíu prósent milli ára á öðrum ársfjórðungi. Samdrátturinn hafi ekki orðið jafn mikill vegna þess hve hratt faraldurinn gekk niður í vor. Auk þess gekk vel að mæta eftirspurn heimila í gegnum netverslun heldur en gert hafði verið ráð fyrir.
Þróun einkaneyslu það sem eftir lifir árs mun ráðast að miklu leyti af því hversu vel tekst til með að halda faraldrinum í skefjum að mati Seðlabankans. Gert er ráð fyrir því að hún dragist saman um sjö prósent á milli ára á seinni helmingi ársins og að heildarsamdráttur einkaneyslu í ár verði 5,8 prósent. Það er minni samdráttur en gert hafði verið fyrir í maí. Batinn á næsta ári verði hins vegar hægari.
Gera ráð fyrir tíu prósent atvinnuleysi
Í spá Seðlabankans er talið að atvinnuleysi verði um tíu prósent undir lok árs og rúmlega sjö prósent að meðaltali á árinu öllu. „Vegna hagstæðari þróunar efnahagsmála á fyrri hluta ársins hefur atvinnuleysi ekki aukist eins mikið og óttast var í maí en hlutabótaleið stjórnvalda, minnkandi atvinnuþátttaka og fjölgun hlutastarfa hafa einnig átt þátt í því að atvinnuleysi jókst minna en ella,“ segir í samantekt spárinnar.
Í spánni segir enn fremur að heildarvinnustundum hafi fækkað um 7,2 prósent á milli ára á öðrum ársfjórðungi samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar og er það mesta fækkun heildarvinnustunda sem mælst hefur á einum ársfjórðungi frá þriðja fjórðungi ársins 2009. Vinnustundafækkunin sé þó minni en gert var ráð fyrir í maí.
Samdráttur útflutnings verði 28 prósent á árinu
„Á heildina litið er talið að útflutningur hafi dregist saman um tæplega 40% milli ára á öðrum fjórðungi ársins og að samdrátturinn á árinu öllu verði ríflega 28% sem er aðeins minni samdráttur en spáð var í maí. Horfur fyrir næstu tvö ár hafa hins vegar lítið breyst,“ segir um þróun útflutnings í spá Seðlabankans.
Á fyrsta ársfjórðungi dróst útflutningur á vörum og þjónustu um 17,2 prósent sem var mesti samdráttur útflutnings í einum fjórðungi frá upphafi ársfjórðungslegra þjóðhagsreikninga árið 1995. Þjónustuútflutningur dróst saman um 16,2 prósent á fyrsta fjórðungi. Áhrif farsóttarinnar á vöruútflutning var minni en á þjónustuútflutning. „Ef horft er fram hjá útflutningi skipa og flugvéla dróst vöruútflutningur saman um 4,5% á fjórðungnum, einkum vegna samdráttar í útflutningi sjávarafurða,“ segir í Peningamálum. Í spá bankans er engu að síður gert ráð fyrir að samdráttur í útflutningi sjávarafurða verði minni en áætlað var. Dreifing á alþjóðamarkaði hefi gengið betur en óttast var og eftirspurn meiri en spáð var.
Mikill samdráttur í helstu viðskiptalöndum Íslands
Þá segir í Peningamálum að landsframleiðsla helstu viðskiptalanda Íslands hafi dregist saman um 1,9 prósent á milli ára á fyrsta ársfjórðungi og áætlað er að samdrátturinn verði tæplega 13 prósent á örðum fjórðungi ársins. Samdrátturinn hafi því orðið meiri en gert var ráð fyrir í maíspá bankans.
„Það er mesti samdráttur sem mælst hefur í þróuðum ríkjum frá upphafi ársfjórðungslegra þjóðhagsreikninga og er hátt í þrisvar sinnum meiri samdráttur á einum ársfjórðungi en mest varð í alþjóðlegu fjármálakreppunni fyrir liðlega áratug,“ segir í Peningamálum um samdrátt helstu viðskiptalanda Íslands.
Í Peningamálum er sagt frá örvunaraðgerðum seðlabanka helstu iðnríkja til þess að reyna að sporna við áhrifum faraldursins. Þeir hafa haldið vöxtum sínum óbreyttum eftir að hafa lækkað þá töluvert við upphaf heimsfaraldurs. Þá hafa þeir beitt örvunaraðgerðum sem leitt hafa til stórfelldrar stækkunar á efnahagsreikningi þeirra.