Vinnumálastofnun gaf út 350 vottorð sem gefa kost á atvinnuleit í öðru EES-ríki í júlí en slík vottorð koma í veg fyrir að einstaklingur missi rétt til atvinnuleysisbóta hér á landi. Það er mesti fjöldi slíkra vottorða sem gefinn hefur verið út í einum mánuði frá byrjun árs 1994 þegar þau voru fyrst gefin út. Þetta má sjá í nýjustu vinnumarkaðsskýrslu Vinnumálastofnunar fyrir júlí síðastliðinn sem kom út fyrr í mánuðinum.
Meðal skilyrða fyrir útgáfu slíks vottorðs er að umsækjandi sé með ríkisborgararétt í EES-ríki og að viðkomandi hafi rétt til atvinnuleysisbóta á Íslandi við brottför. Fram kemur í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í gær að fjöldi útgefinna vottorða í júlímánuði gæti bent til þess að brottflutningur erlendra ríkisborgara muni aukast á næstunni.
Flest vottorð voru gefin út til einstaklinga sem fóru í atvinnuleit til Póllands eða 223 talsins. 30 einstaklingar fóru í atvinnuleit til Litháen og 15 til Lettlands. Alls voru 82 vottorð gefin út til viðbótar fyrir atvinnuleit í 20 öðrum ríkjum.
Flutningsjöfnuður neikvæður í fyrsta sinn síðan 2012
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um var flutningsjöfnuður erlendra ríkisborgara neikvæður á síðasta ársfjórðungi og var það í fyrsta sinn síðan á öðrum ársfjórðungi ársins 2012 sem það gerist. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fluttu um 1.100 erlendir ríkisborgarar til landsins á síðasta ári en um 1.350 fluttu burt af landinu.
Erlendir ríkisborgarar hafa leikið lykilhlutverk í hagvaxtarskeiðinu sem hófst árið 2011 en ómögulegt hefði verið að manna öll þau störf sem sköpuðust frá þeim tíma ef ekki hefði verið fyrir erlent vinnuafl. Til að mynda störfuðu um 10.700 erlendir ríkisborgarar í ferðaþjónustu á síðasta ári eða um fjórðungur erlends vinnuafls samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Nú er svo komið að atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara er komið í 19,2 prósent samkvæmt vinnumarkaðsskýrslu Vinnumálastofnunar. Ef tekið er tillit til hlutabótaleiðarinnar mældist atvinnuleysi þessa hóps tæplega 20,5 prósent í júlí. Til samanburðar var almennt atvinnuleysi á íslenskum vinnumarkaði alls 7,9 prósent í mánuðinum og 8,8 prósent með tilliti til hlutabótaleiðarinnar.