Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt ríkisábyrgð á lánalínu ríkisbankanna Íslandsbanka og Landsbankans til Icelandair Group. Ríkisábyrgðin nær yfir 90 prósent af lánalínunni og er upp á 15 milljarða króna. Nýti Icelandair línuna, og fari samt í þrot, mun íslenska ríkið eignast vörumerkið Icelandair, bókunarkerfi félagsins og nokkur lendingarleyfi þess á lykiláfangastöðum.
Í fréttatilkynningu frá ESA segir að ákvörðun stofnunarinnar að samþykkja ábyrgðina byggi á grein samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem gerir EFTA-ríkjum eins og Íslandi kleift að bæta fyrir tjón sem ákveðin fyrirtæki og atvinnugreinar verða beint fyrir vegna óvenjulegra atvika, líkt og COVID-19 faraldurinn sé. „Þetta felur meðal annars í sér ráðstafanir til að veita fjárhagslegan stuðning til fyrirtækja í atvinnugreinum sem hafa orðið illa úti af þessum sökum, eins og í samgöngu-, ferðaþjónustu- og öðrum þjónustugeirum.“
Bente Angell-Hansen, forseti ESA, segir það mikilvægt fyrir efnahag Íslands og ferðafrelsi borgaranna að flugsamgöngur geti haldið áfram til og frá Íslandi. „Við vinnum náið með íslenskum stjórnvöldum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að finna góðar leiðir til að heimila stuðning við fyrirtæki á þessum erfiðu tímum.“
Kjarninn greindi frá því á þriðjudag að stjórnvöld ætluðu að huga sérstaklega að því að ríkisábyrgð á láni til Icelandair Group samrýmist reglum um ríkisaðstoð, enda eigi ráðstafanir hins opinbera ekki að fela í sér ótilhlýðilega röskun á samkeppni.
Ríkisábyrgðin yrði því tengd með beinum hætti við tap sem er til komið vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á flugrekstur félagsins.
Með því tengja ríkisábyrgðina við tjón sem faraldurinn veldur á flugrekstrinum á að stuðla gegn ótilhlýðilegum áhrifum á aðra þætti félagsins, en Icelandair Group rekur einnig til dæmis ferðaskrifstofur, á fjórðungshlut í hótelkeðju og rekur vöruflutningafyrirtæki.