„Það er hætta á ferðum í þjóðfélögum þegar enginn þorir að standa upp og benda á þær hættur sem eru fram undan eða það sem betur mætti fara. Í einræðisríkjum eru slíkir einstaklingar teknir í karphúsið svo að aðrir sitji kyrrir. Í lýðræðisþjóðfélögum geta hagsmunaaðilar eða miskunnarlaus meirihluti gengið hart að þeim sem fram stígur.“
Þetta skrifar Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, í grein í nýjustu útgáfu Vísbendingar sem barst áskrifendum í dag.
Þar fjallar hann hann um það hagfræðilega tómarúm sem skapaðist þegar stjórnvöld ákváðu að leggja niður Þjóðhagsstofnun árið 2002. Gylfi segir að Alþingismenn, ríkisstjórn landsins og þjóðfélagið allt eigi það skilið að sett sé upp stofnun þar sem hagfræðileg greining sé framkvæmd svo að ákvarðanir séu vandaðar og umræða í samfélaginu upplýstari og minna lituð af þeim sem hafa sérhagsmuni sem fari ekki alltaf saman við almannahag.
Engin greinarmunur gerður í fjölmiðlum
Með því að skapa og varðveita það hagfræðilega tómarúm sem skapaðist þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður fyrir 18 árum hafi stjórnvöld hér á landi búið til aðstæður þar sem hagsmunasamtök geta fyllt tómarúmið með einhliða málflutningi. „Greiningardeildir bankanna og stjórnendur þeirra fylltu tómarúmið fyrir 2008 og vitnað í talsmenn þeirra eins og þeir væru óháðir aðilar. Þau voru einungis að vinna vinnuna sína og gátu varla fjallað um allt sem þau vildu.“
Sagði opnun landsins mistök
Gylfi skrifaði aðra grein í Visbendingu, sem birtist 7. ágúst, sem vakti gríðarlega athygli og varð til þess að hann var gagnrýndur af stjórnmálamönnum og hagsmunagæsluaðilum.
Í þeirri grein setti Gylfi fram það mat að stjórnvöld hefðu gert mistök með því að opna landið fyrir ferðamönnum um miðjan júní. Þau hafi ofmetið kosti þess en vanmetið þá hættu sem slík opnun skapaði fyrir efnahagslífið. Ekki hafi verið gerð heildstæð athugun á efnahagslegum áhrifum opnunarinnar við undirbúning hennar. „Með ákvörðunum sínum um opnun landsins hafa stjórnvöld stefnt mikilvægum almannagæðum í hættu sem eru þau gæði að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki, unnið með öðru fólki og verslað við annað fólk. Og þar með er efnahag landsins einnig stefnt í hættu.“
Viku síðar var greint frá ákvörðun stjórnvalda um að herða verulega takmarkanir á landamærum Íslands með því að skylda alla ferðamenn í tvöfalda skimun og fimm til sex daga sóttkví á milli þeirra.
Gylfi segir í greininni sem birtist í dag að þeim skrifum hafi verið ætlað að vera innlegg í umræðuna en ekki allsherjardómur. „Einungis í því tómarúmi sem hér hefur verið á sviði hagfræðilegrar greiningar hefðu slík greinarskrif getað valdið titringi í stjórnmálum og beinskeyttum ritstjórnargreinum í dagblöðum.“