„Það er mjög mikilvægt ef skatturinn er byrjaður að fá gögn frá þessum aðilum, því þetta er eitt af því sem við höfum verið að berjast fyrir, að þetta hagkerfi, deilihagkerfið, sé innan lagarammans,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Kjarnann.
Í gær greindi skattrannsóknarstjóri frá því að embættið hefði fengið gögn um rúmlega 25 milljarða greiðslur frá AirBnB á Írlandi til íslenskra skattþegna á fjögurra ára tímabili, frá 2015-2018.
Að hafa betra eftirlit með skammtímaútleigu á íbúðarhúsnæði hefur verið sett á oddinn af hálfu Samtaka ferðaþjónustunnar á undanförnum árum, en samtökin telja ríkissjóð hafa orðið af milljörðum króna sökum þess að greiðslur fyrir íbúðir sem leigðar eru í gegnum AirBnB og fleiri slíkar síður séu ekki uppi á borðum, sem hafi líka skekkt samkeppnisstöðu hótela og gistiheimila, sem greiða allt sitt.
„Þetta, fyrir okkur, hefur alltaf snúist um að jafna samkeppnisgrundvöllinn, gagnvart þeim sem eru með gistiþjónustu í atvinnustarfsemi,“ segir Jóhannes Þór og bætir við að skammtímaútleiga á íbúðarhúsnæði hafi ekki verið af hinu slæma þegar hún jókst mjög um miðjan áratuginn, því þörfin fyrir gistirými var meiri í örum vexti ferðaþjónustunnar en svo að hægt væri að uppfylla hana með hótelherbergjum eingöngu.
Eftirlitið hafi skilað góðum árangri
Eftirlitið með skammtímagistingu hefur verið aukið á undanförnum árum og áhrifin hafa verið jákvæð, segir Jóhannes. „Skráningum hefur fjölgað töluvert og ríkið hefur fengið inn í rauninni meira en peningana sem það lagði í eftirlitið í sektargreiðslur. Eftirlitið hefur þannig staðið undir kostnaði og gott betur, sem var akkúrat það sem við lögðum upp með á sínum tíma að myndi gerast.“
„Sektargreiðslurnar eru að stærstum hluta að koma frá, skilst mér, stærri aðilum, sem hafa í alvörunni verið að svindla á kerfinu og ekki farið eftir réttum leikreglum. Þetta hefur verið stórvandamál, því áður en þetta átak var sett í gang voru þetta minnir mig um sex þúsund aðilar sem voru skráðir með skammtímaleigu á þessum vefsíðum, en í rauninni undir tvöþúsund sem voru skráðir og að greiða skatta og skyldur,“ segir Jóhannes Þór.
Hann nefnir að Ísland hafi ekki verið eina landið sem var að reyna að færa þetta nýja fyrirbæri, deilihagkerfið, inn í lagarammann og skattheimtuna, en reynst hefur erfitt að fá gögn frá skrifstofum AirBnB í Írlandi.
„Evrópusambandið hefur tekið á hluta af þessu vandamáli með reglusetningu en það hefur verið stór hluti af þessu vandamáli að þessar vefsíður, það hefur verið erfitt að kría út úr þeim upplýsingar um hvaða raunverulegu greiðslur eru að skila sér til útleigjenda, svo hægt sé að innheimta af þeim réttar skattgreiðslur.“