Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn tapaði 410 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2020. Félagið tapaði 1,7 ,milljarði króna á árinu 2019 og hefur því tapað yfir tveimur milljörðum króna á einu og hálfu ári. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins sem birtur var í gær.
Inni í þeirri tölu er einskiptishagnaður vegna sölu á færeyska félaginu Hey upp á 817 milljónir króna í byrjun árs í fyrra. Án hans hefði tapið aukist um þá tölu.
Tapið á öðrum ársfjórðungi, sem hófst í byrjun apríl og lauk í lok júní, nam 60 milljónum króna en það er umtalsvert minna tap en á sama ársfjórðungi í fyrra þegar tapið var 215 milljónir króna.
Tekjur Sýnar vaxa enda milli ára. Þær voru 10,3 milljarðar króna á fyrri hluta ársins en höfðu verið rétt um tíu milljarðar króna á sama tímabili 2019. Tekjuhækkunin er að öllu leyti tilkomin vegna þess að tekjur Endor, upplýsingafyrirtækis sem stýrir ofurtölvum sem Sýn keypti í fyrra, komu inn í samstæðureikning félagsins í ár. Tekjur vegna hýsingar- og rekstrarlausna voru því 1.315 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 en þær voru engar í fyrra.
Á sama tíma hafa tekjur af bæði fjarskiptum og fjölmiðlun dregist saman.
Enn dragast tekjur af fjölmiðlunum saman
Sýn keypti ýmsa fjölmiðla af félaginu 365 miðlum í lok ársins 2017. Um er að ræða ljósvakamiðla á borð við Stöð 2, Bylgjuna og tengdar útvarpsstöðvar og fréttavefinn Vísi. Kaupverðið var 8,2 milljarðar króna.
Á milli áranna 2018 og 2019 lækkuðu tekjur Sýnar af umræddum fjölmiðlum um 446 milljónir króna og í upphafi árs 2020 var viðskiptavild sem var tilkomin vegna fjölmiðlanna sem voru keyptir lækkuð um 2,5 milljarða króna. Markaðsvirði Sýnar í heild í dag er 6,9 milljarðar króna, eða umtalsvert lægri upphæð en félagið greiddi fyrir fjölmiðlanna árið 2017, en fjölmiðastarfsemi er um 35 prósent af tekjustraumum Sýnar.
Samdrátturinn var mestur á öðrum ársfjórðungi og er það meðal annars rekið til þess að auglýsingatekjur hafi dregist saman um 17 prósent milli árshelminga. Í í fjárfestakynningu Sýnar segir að þetta sé að stórum hluta vegna COVID-19 en þó tiltekið að auglýsingasala hafi tekið aftur við sér á seinni hluta annars ársfjórðungs. Þannig hafi auglýsingatekjur júní mánaðar hærri en tekjur sama mánaðar árið áður
Áskriftartekjur drógust líka saman milli tímabila vegna áhrifa af verð- og dagskrárbreytinga sem „vegið er upp með auknum tekjum af sjónvarpsdreifingu,“ samkvæmt fjárfestakynningunni.
Þá er Sýn með hluta af sínum kostnaði í erlendri mynt, og þar vegur einna þyngst kostnaður sýningarrétta á efni sem sýnt er á sjónvarpsstöðvum félagsins. Um 14 prósent veiking krónunnar það sem af er ári hefur .ví hækkað rekstrarkostnað Sýnar.
Reikitekjur hverfa með ferðamönnunum
Fjarskiptatekjur Sýnar dragast líka umtalsvert saman. Á öðrum ársfjórðungi, þegar áhrif af COVID-19 komu sem mest fram,. lækkuðu tekjur af farsímaþjónustu til að mynda um 14 prósent og tekjur af fastlínu um næstum fjórðung. Tekjur af interneti hafa enn fremur dregist saman um fimm prósent.
Í fjárfestakynningunni kemur fram að það sé samdrátturinn í farsímatekjum sé að stóru leyti beintengdur fækkun ferðamanna til landsins og samdrætti í ferðum Íslendinga erlendis vegna COVID-19. Það hafi hríðlækkað svokallaðar reikitekjur Sýnar, en í árshlutareikningi félagsins segir að þær hafi lækkað alls um 84 prósent frá upphafi faraldursins. „Ef sambærileg staða verður á aðgerðum stjórnvalda vegna faraldursins við landamæri eins og þær eru núna þá má ætla að reikitekjur hverfi nærri að fullu seinni hluta ársins.“ Möguleg áhrif samdráttar í reikitekjum á framlegð ársins 2020 er um 200 milljónir króna.
Lægri tekjur í sölu á interneti eru útskýrðar með því að komið hafi verið til móts við viðskiptavini með því að fella niður kostnað vegna umfram gagnamagnsnotkunar í samkomubanni.
Vörusala hefur líka orðið fyrir umtalsverðum áhrifum af faraldrinum og tekjur vegna hennar drógust saman um sjö prósent á öðrum ársfjórðungi 2020, þar sem opnunartíma verslana var breytt í samkomubanninu og verslun félagsins í Kringlunni lokað.
Fráleitt að takmarka aðgengi til að þóknast Trump
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna birtingar á árshlutauppgjörinu er haft eftir Heiðari Guðjónssyni, forstjóra Sýnar, að reksturinn hefði verið arðsamur ef COVID-19 hefði ekki komið til. „Bæði auglýsinga- og reikitekjur minnkuðu umtalsvert á tímanum auk þess sem tekjur komu ekki inn að fullu af tveimur stærstu efnisréttunum, EM í fótbolta og Meistaradeildinni, líkt og ráð hafði verið fyrir gert.“
Hann segir þar að enn sé beðið eftir athugasemdum frá eftirlitsaðilum vegna hugsanlegs samstarfs allra þriggja stóru símfyrirtækjanna (Símans, Sýnar og Nova) varðandi sameiginlega uppbyggingu 5G. „Þar teljum við að hagsmunir almennings og þjóðaröryggi fari algerlega saman því verið væri að útvíkka birgjasambönd og tryggja sem besta samningsstöðu við erlenda framleiðendur. Það væri fráleitt að takmarka aðgengi íslenskra einkafyrirtækja að besta og ódýrasta búnaðinum til þess eins að þóknast utanríkispólitík Donalds Trump.“ Þar á Heiðar við vilja bandarískra stjórnvalda um að koma í veg fyrir að kínverska fyrirtækið Huawei geti selt 5G-búnað til vestrænna landa.
Heiðar segir að Sýn sé enn að hagræða og sjái tækifæri til að nýta betur fjármagnið með samnýtingu fjárfestinga. „Í því augnamiði er verið að færa meiri rekstur og fjárfestingar inn í Sendafélagið, sem er rekið með Nova. Samþykki eftirlitsaðila liggur þegar fyrir hvað þetta varðar. Aðgerðirnar munu bæta arðsemi rekstrar farsímakerfisins. Það er svo til athugunar að bjóða hluta farsímakerfisins til sölu, sem myndi skila umtalsverðu fjármagni til hluthafa. Alþjóðlegir aðilar hafa mikinn áhuga á fjárfestingum í innviðum símfyrirtækja og margfaldarar í viðskiptum eru mun hærri en gerist á almennum hlutabréfamarkaði.“
Í lok tilkynningarinnar segir Heiðar að hluthafar Sýnar fari loks að fá þolinmæði sína verðlaunaða, enda sé viðsnúningur að koma fram. „Það er ætlun mín að skila fjármagni til hluthafa á næstu misserum.“
Ljóst er að uppgjörið, og sú opinberun að til standi að selja mjögulega hluta farsímakerfisins, hefur haft jákvæð áhrif á eftirspurn eftir bréfum í Sýn, en í fyrstu viðskiptum dagsins í dag hækkaði markaðsvirði félagsins um tæp 16 prósent. Á meðal þeirra sem keypti bréf í dag er Heiðar sjálfur. Hann keypti samtals fyrir 134 milljónir króna.