Nýr samningur Evrópusambandsins við bresk-sænska lyfjaframleiðandann AstraZeneca ætti að tryggja bólusetningu fyrir um 159 þúsund Íslendinga gegn COVID-19.
Tvöfalt fleiri skammta af bóluefni þyrfti þó til þess að tryggja hjarðónæmi innan landsins ef bólusetja þarf hvern einstakling tvisvar, en vonast er til þess að samningar ESB við önnur lyfjafyrirtæki tryggi nægt framboð á næstu mánuðum.
Tilkynnt var um samning ESB við AstraZeneca síðastliðinn fimmtudag, en samkvæmt honum mun sambandið geta keypt 400 milljónir skammta af bóluefninu, sem er betur þekkt sem Oxford-bóluefnið, þegar það er tilbúið.
Kjarninn hefur áður fjallað um Oxford-bóluefnið, en það hefur þótt líklegast til að verða hið fyrsta til að gagnast í baráttunni gegn veirunni á heimsvísu. Bóluefnið byggir á veirutegund frá simpönsum, en síðasta tilraunastig þess stendur nú yfir í Englandi, Indlandi og Brasilíu þar sem verið er að prófa það á þúsundir manna.
AstraZeneca hefur tilkynnt að fyrstu skammtar bóluefnisins, sem hægt væri að nota í neyðartilvikum, gætu komist í dreifingu í október ef allt gengur að óskum.
Samkvæmt fréttatilkynningu Evrópusambandsins verður skömmtum af bóluefninu dreift jafnt um öll aðildarríki þess, með tilliti til mannfjölda hvers ríkis. Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti svo síðastliðinn föstudag að EES-ríki muni einnig fá hlutfallslega sama magn bóluefna frá Evrópusambandinu, með milligöngu Svíþjóðar.
Nóg fyrir 159 þúsund Íslendinga
Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að 550 þúsund skammta af bóluefni þyrfti hérlendis til þess að mynda hjarðónæmi gegn veirunni, ef gert er ráð fyrir að hver einstaklingur verði bólusettur tvisvar.
Þar sem heildarmannfjöldi á EES-svæðinu nemur rúmum 460 milljónum tryggir samningurinn við AstraZeneca þó bara í mesta lagi 0,8 skömmtum á hvern íbúa, eða um 317 þúsund skömmtum hér á landi. Þetta dygði fyrir um 159 þúsund Íslendinga, en tæplega tvöfalt fleiri skammta þyrfti svo að þjóðin nái hjarðónæmi.
Vonir bundnar við önnur bóluefni
Ekki eru þó einungis bundnar vonir við Oxford-bóluefnið, en ESB greindi líka frá því að samningaviðræður hefðu hafist við fjóra aðra lyfjaframleiðendur um kaup á bóluefnum þeirra gegn kórónuveirunni á næstu mánuðum. Þeirra á meðal er lyfjafyrirtækið Sanofi-GSK, en Evrópusambandið vonast til þess að geta keypt um 300 milljónir skammta frá því.
Sambandið reynir einnig að ná kauprétti á 225 milljónum skammta af bóluefni frá Curevac, 200 milljónum skammta frá Johnson & Johnson, auk 80 milljóna skammta frá fyrirtækinu Moderna.