Taugalæknirinn Scott Atlas, sem bættist í ráðgjafahóp Donalds Trump Bandaríkjaforseta í ágúst, hefur talað fyrir því að vænlegasta leiðin í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum sé að leyfa veirunni að breiðast út í samfélaginu en á sama tíma að vernda íbúa hjúkrunarheimila og aðra viðkvæma hópa. Atlas hefur viðrað þessa skoðun sína síðustu mánuði og Washington Post hefur eftir heimildarmönnum sínum að þessa leið hafi hann nú einnig lagt til við forsetann. Talsmenn Hvíta hússins hafa þó ítrekað að stefna Trump sé óbreytt, vonast sé til þess að árangursríkt bóluefni komi sem fyrst á markað sem muni leiða bandarísku þjóðina út úr hömlum faraldursins. Engu að síður herma heimildir Washington Post að undirbúningur aðgerða í takt við ráðleggingar Atlas sé þegar hafinn og benda breytingar á framkvæmd skimunar fyrir veirunni í þá átt.
Hin umdeilda leið að hjarðónæmi sem Atlas leggur til er oft kennd við Svíþjóð. Í henni felst að setja litlar samfélagslegar hömlur og að heilbrigt fólk sýkist og myndi mótefni í stað þess að takmarka samneyti fólks og reyna þannig að koma í veg fyrir útbreiðsluna.
Sænsk yfirvöld hafa allt frá upphafi faraldursins verið harðlega gagnrýnd fyrir sínar slöku aðgerðir og á það bent að þar í landi sé dánartíðni vegna COVID-19 einna hæst í heiminum. Á sama tíma hafi Svíum ekki tekist að komast hjá efnahagslægð frekar en öðrum ríkjum sem völdu harðari aðgerðir og takmarkanir.
Sænska leiðin á sér þó stuðningsmenn víða. Þeir hafa bent á að þó að samdráttur í hagkerfi Svíþjóðar hafi verið 8,6 prósent á tímabilinu apríl til júní miðað við mánuðina þrjá þar á undan hafi hann verið minni en í öðrum löndum Evrópusambandsins. Að auki vilja þeir meina að harðar aðgerðir séu skerðing á frelsi einstaklinganna og að slíkt sé ekki léttvægt í stóru myndinni.
Scott Gottlieb, fyrrverandi forstjóri Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna, skrifaði grein í The Wall Street Journal á sunnudaginn þar sem hann varaði eindregið við sænsku leiðinni. Fylgja ætti áfram þeirri aðferð að takmarka útbreiðsluna eins og hægt er. „Sænsk stjórnvöld leyfðu veirunni að mestu að breiðast út í upphafi á sama tíma og skref voru tekin til að vernda aldraða,“ skrifaði Gottlieb. Stefnt hafi verið að hjarðónæmi til að koma í veg fyrir efnahagslegar þrengingar. En ýmislegt hafi gerst í Svíþjóð sem verði að fylgja umræðunni um sænsku leiðina. Eitt af því sé að þó að ekki hafi verið gripið til harðra takmarkana á samkomum hafi Svíar margir hverjir haldið sig til hlés, jafnvel ungt og heilbrigt fólk. Þar hafi yfir 5.800 manns látist vegna COVID-19 og þrátt fyrir allt sé hjarðónæmi langt frá því náð.
Ýmsir sérfræðingar, m.a. Paul Romer, hagfræðingur sem hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2018, hafa tekið í sama streng og líst engan veginn á að sænska leiðin verði farin í Bandaríkjunum. Romer bendir á að reynslan hafi ítrekað sýnt að ef smit í samfélaginu verði almennt sé ekki hægt að hindra að það berist í viðkvæma hópa, þrátt fyrir viðleitni í þá átt. Fórnarkostnaðurinn gæti orðið gríðarlegur og hundruð þúsunda manna, jafnvel milljónir, dáið.
Í ráðgjafateymi Trumps vegna faraldursins eru ýmsir sérfræðingar í smitsjúkdómum og þó að Atlas sé læknir er hann ekki sérfræðingur á því sviði. En líkt og víðast hvar í heiminum eru stjórnvöld nú farin að taka fleiri þætti inn í myndina en sóttvarnasjónarmið. Trump vildi fá fleiri sjónarhorn inn í teymið og Atlas, sem hefur tjáð sig oftsinnis um aðferðafræðina í sumar, var því fenginn að borðinu.
Trump vill aflétta takmörkunum sem fyrst
Eftir að fréttaskýring Washington Post var birt í gær sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist ekki hafa lagt formlega til að hjarðónæmisleiðin yrði farin. Hins vegar hefur Trump óskað eftir upplýsingum um áhrif þeirrar leiðar, ekki síst hver þau yrðu á efnahagslíf landsins. Í vikunni sagði hann á fundi Repúblikanaflokksins að leita yrði leiða til að opna skóla og fyrirtæki. „Við viljum hafa [skóla og fyrirtæki] opin. Þau verða að hafa opið. Fólk verður að komast aftur í vinnuna.“
Trump hefur hingað til fyrst og fremst reitt sig á ráðgjöf Anthony Fauci, helsta sérfræðings Bandaríkjanna í smitsjúkdómum, og Deboruh Birx, sem leitt hefur samhæfingu aðgerða stjórnvalda í faraldrinum. Þau hafa bæði sagt að hjarðónæmisleiðin sé ekki vænleg til árangurs. Atlas hefur hins vegar sagt opinberlega að fjölgun smita muni verða til þess að ónæmi meðal þjóðarinnar náist fyrr og að því þurfi ekki að fylgja stórkostleg fjölgun dauðsfalla svo lengi sem það takist að vernda viðkvæma hópa.
Sérfræðingar í smitsjúkdómum hafa á sama tíma vakið athygli á því að 25 þúsund Bandaríkjamenn yngri en 65 ára hafi látist vegna COVID-19. Þeir hafa einnig bent á að í Bandaríkjunum er offita, sem talin er áhættuþáttur, útbreidd og að sömu sögu megi segja um hjarta- og lungnasjúkdóma. Allt tilheyri þetta fólk viðkvæmum hópum þegar komi að faraldrinum og að stór hluti búi utan hjúkrunarheimila.
„Þegar ungt og heilbrigt fólk fær sjúkdóminn, þá veldur hann því ekki erfiðleikum,“ sagði Atlas í viðtali við Fox-fréttastofuna í júlí. „Þegar þetta fólk fær sjúkdóminn er það ekki raunverulegt vandamál, og í reynd, eins og við sögðum fyrir mörgum mánuðum síðan, þegar þú einangrar alla, líka heilbrigða fólkið, þá ertu að framlengja vandann því þú ert að koma í veg fyrir ónæmi í samfélaginu. Það að fólk sem ekki er í áhættuhópum fái sýkinguna er ekki vandamál.“
Óþarfi að skima meðal einkennalausra
Smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna, CDC, uppfærði nýverið leiðbeiningar sínar um skimun fyrir veirunni. Samkvæmt þeim þarf nú ekki að skima meðal einkennalausra, jafnvel þótt að þeir hafi umgengist sýkta. Stofnunin telur að um 40 prósent þeirra sem sýkst hafa af COVID-19 séu einkennalausir og fram hefur komið að stór hluti smita sem greinst hafi í sumar séu vegna ungs fólks sem ekki hefur fundið einkenni.
Tæplega 6 milljónir manna hafa greinst með veiruna í Bandaríkjunum til þessa og að minnsta kosti 180 þúsund hafa látist vegna COVID-19.
Atlas telur að hjarðónæmi hafi þegar myndast í New York, Chicago og New Orleans en því eru Fauci og Birx ósammála. Áfram ætti að fara varlega í að aflétta takmörkunum.
Hvenær næst hjarðónæmi?
Einn óvissuþátturinn er sá hversu margir þurfi að sýkjast svo hægt sé að tala um hjarðónæmi sem leiði til þess að smitum muni fækka stórlega. Sumir vilja meina að 20 prósent samfélags sé nóg en aðrir að talan þurfi að vera mun nærri, jafnvel um 70 prósent. Á þeirri línu eru t.d. sérfræðingar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.
Í fréttaskýringu Washington Post segir að ef 65 prósent bandarísku þjóðarinnar, sem telur 328 milljónir manna, þurfi að smitast til að ná hjarðónæmi myndu mögulega yfir tvær milljónir manna deyja vegna COVID-19.
Og óvissuþættirnir eru fleiri. Langtímaeinkenni kórónuveirusýkingar eru nú að koma í ljós. Fólk sem veiktist af COVID-19 hefur margt hvert mánuðum saman verið að fást við verki ýmiskonar og þrekleysi. Ef sækjast á eftir hjarðónæmi án bóluefnis þarf einnig að taka það með í reikninginn.