Þórólfur Guðnason sóttvarnalækir hefur sent heilbrigðisráðherra minnisblað þar sem hann leggur til að nálægðarreglunni verði breytt úr tveimur metrum í einn fyrir alla. Hingað til hefur sú regla aðeins gilt í skólum. Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag að ástæðan fyrir breytingunni væri sú að niðurstöður úr rannsóknum sýndu að einn metri minnkar líkur á smiti fimmfalt. Það sé ásættanlegt auk þess sem það muni liðka fyrir ákveðinni starfsemi. Þá hefur hann einnig lagt til að fjöldatakmörkum verði breytt úr 100 manns í 200.
Þessu greindi Þórólfur frá á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.
Núverandi reglur innanlands gilda til 10. september en Þórólfur leggur til að nýjar reglur taki gildi fyrr eða 7. september. Á hann von á auglýsingu ráðherra fljótlega, jafnvel í dag.
Í nýjustu tillögum Þórólfs til ráðherra er einnig lagt til að líkamsræktarstöðvar og sundstaðir geti tekið á móti 75 prósent af leyfilegum fjölda gesta í stað 50 prósent áður að sviðslistir verði leyfðar með 200 manna áhorfendum og að eins metra reglan verði þar sem annars staðar höfð í heiðri. Þá leggur hann til að afgreiðslutíma skemmtistaða og annarra sem eru með vínveitingaleyfi verði óbreyttur eða til kl. 23.
„Við erum að hefja vegferð á afléttingu á ýmsum takmörkunum í samfélaginu. Allir þurfa að leggja sig sérstaklega vel fram og viðhafa einstaklingsbundnar sýkingavarnir. Því það er það mikilvægasta sem við gerum til að koma í veg fyrir hópsýkingu hér.“