Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, kvartar yfir myndbirtingu RÚV af því fyrrverandi og núverandi starfsfólki Samherja sem er með stöðu sakbornings í rannsókn á starfsemi fyrirtækisins í Namibíu örvæntingarfulla hefndaraðgerð „dulbúin sem frétt og gróf aðför að saklausu fólki.“ Þetta kemur fram í bréfi Þorsteins Más til starfsfólks Samherja sem birt hefur verið á heimasíðu fyrirtækisins.
RÚV greindi frá því í gær að sex einstaklingar væru með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á starfsemi Samherja. Þeir eru, auk Þorsteins, Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, og uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson, sem var um tíma framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu.
Í málinu er grunur er að um mútugreiðslur hafi átt sér stað, meðal annars til erlendra opinberra starfsmanna. Auk þess er grunur um brot á ákvæði almennra hegningarlaga um peningaþvætti og brot á ákvæði sömu laga um auðgunarbrot.
Segist ekki óttast rannsókn
Í bréfi sínu í til starfsfólks fjallar Þorsteinn Már ekki efnislega um þá rannsókn sem stendur yfir en segist ekki kvíða því máli sem sé til rannsóknar og gerir ekki tilraun til að hrekja efnisatriði fréttar RÚV um það hverjir séu með stöðu sakbornings við rannsókn málsins. „Rannsókn er ekki dómur og það er óverjandi að ríkisfjölmiðillinn felli dóma yfir saklausu fólki með þeim hætti sem var reynt í gærkvöldi,“ skrifar Þorsteinn Már.
Öllum má vera ljóst að myndbirting af þessu tagi er mjög þungbær fyrir þá sem eiga í hlut og fjölskyldur þeirra. Allir þeir starfsmenn, sem birtar voru myndir af í gærkvöldi, eru óþekktir og hafa aldrei eða örsjaldan verið nafngreindir í fjölmiðlum áður. Menn þurfa ekki að velkjast í neinum vafa um að eini tilgangur með þessari myndbirtingu, í annars afar innihaldsrýrri frétt, var að valda sem mestum skaða. Er þetta enn einn vitnisburðurinn um hnignun fréttastofu Ríkisútvarpsins.“
Miklar útistöður eftir opinberun
Samherji hefur átt í miklum útistöðum við RÚV eftir að þáttur Kveiks sem opinberaði starfsemi Samherja í Namibíu fór í loftið í nóvember á síðasta ári en umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks. Margra mánaða rannsóknarvinna þeirra sýndi fram á meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherjasamstæðunnar í tengslum við veiðar hennar í Namibíu. Allt það fólk sem var til umfjöllunar í frétt RÚV í gær var nafngreint og var til umfjöllunar í Kveiksþættinum í nóvember.
Undanfarið hefur birtingarmynd þeirra átaka verið myndbönd sem Samherji hefur látið framleiða og ákvörðun fyrirtækisins að kæra ellefu starfsmenn RÚV til siðanefndar ríkisfjölmiðilsins fyrir framgöngu þeirra á samfélagsmiðlum.
Sjö nýjustu fréttatilkynningar sem birtar hafa verið á heimasíðu Samherja fjalla um RÚV með einhverjum hætti.
Til rannsóknar víða
Í þætti Kveiks gekkst Jóhannes Stefánsson við því að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja þegar fyrirtækið náði í umtalsverðan kvóta í Namibíu. Þar kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja.
Hér á landi eru bæði héraðssaksóknari og embætti skattrannsóknarstjóra með mál tengd starfsemi Samherja í Namibíu til rannsóknar. Málið hefur einnig til rannsóknar í Noregi.
Jóhannes var yfirheyrður af starfsmönnum héraðssaksóknara í nóvember í fyrra en auk hans hafa áðurnefndir fimm fyrrverandi og núverandi starfsmenn Samherja verið kallaðir til yfirheyrslu, og þeim gerð grein fyrir réttarstöðu sinni.
Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Tamson Hatuikulipi, tengdasonur Esau, hafa ásamt fjórum öðrum setið í gæsluvarðhaldi frá því á síðasta ári á meðan namibísk yfirvöld rannsaka mál þeirra. Þeir eru grunaðir um að hafa þegið mútur frá Samherja í skiptum fyrir kvóta.
Í bréfi sem Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóra Samherja sem var ráðinn til félagsins eftir að málið kom upp, birti á sjávarútvegsfréttavefnum Undercurrent News 24. ágúst síðastliðinn sagði meðal annars að enginn vafi væri að „Samherja hefur mistekist að verja dótturfélög sín gegn brotum einstaklinga. Okkur þykir það mjög leitt.“