Það er mögulegt og meira að segja jafnvel töluvert líklegt, að niðurstöður bandarísku forsetakosninganna í ár muni ekki liggja fyrir á kosninganótt, eins og oftast er. Ástæðan fyrir þessu er sú að fjöldi póstatkvæða í þessum kosningum verður miklu mun meiri en áður hefur sést, vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Hawkfish, tölfræðifyrirtæki í eigu auðkýfingsins Michael Bloomberg sem reyndi að verða forsetaframbjóðandi demókrata, hefur sett fram spá þar sem fram kemur að 40 prósent atkvæða í kosningunum í ár verði póstatkvæði. Þetta gæti, samkvæmt sviðsmynd fyrirtækisins, leitt til þess að staða Donald Trumps muni virðast sterkari stöðu á kosninganótt en hann er í raun, þar sem ekki verði búið að telja öll póstatkvæði.
Ástæðan fyrir þessu er sú að hlutfallslega eru stuðningsmenn Joe Bidens mun líklegri til þess hafa ætlan um að kjósa með póstatkvæðum en stuðningsmenn Trumps, samkvæmt John Mendelsohn framkvæmdastjóra Hawkfish, sem ræddi málið í viðtali í fréttaþætti Axios á HBO-sjónvarpsstöðinni í síðustu viku.
„Við erum að hringja viðvörunarbjöllunni og segja að þetta sé mjög raunverulega mögulegt, að tölurnar á kosninganótt muni sýna ótrúlegan sigur Donalds Trump,“ sagði Mendelsohn. Hann segir jafnframt að þegar hvert eitt og einasta lögmætt atkvæði hafi verið talið gæti niðurstöðurnar sýnt fram á að það sem sást á sjónvarpsskjám landsmanna á kosninganótt hafi einungis verið tálmynd.
„Rauð tálmynd,“ segir hann og vísar til einkennislits Repúblikanaflokksins.
Dæmi frá Hawkfish
- Samkvæmt einni sviðsmynd gæti Trump verið spáð 408 kjörmönnum á kosninganótt, gegn 130 kjörmönnum Bidens, ef á þeim tímapunkti væri einungis búið að telja 15 prósent póstatkvæða.
- Þegar 75 prósent póstatkvæða hefðu verið talin, til dæmis fjórum dögum seinna, gæti fjöldi kjörmanna verið búinn að snúast Biden í hag.
- Þessi sviðsmynd hefur þá lokaniðurstöðu að Biden myndi vinna risastóran sigur, með 334 kjörmenn gegn 204.
Búið að tala lögmæti kosninganna niður
Hvernig myndi bandarískt samfélag bregðast við ef svo færi að forsetinn liti út fyrir að hafa unnið kosningasigur á kosninganótt en annað kæmi í ljós nokkrum dögum seinna, þegar öll atkvæði hefðu skilað sér?
Þetta bandaríska samfélag er þegar klofið í herðar niður eftir pólitískum flokkalínum, stór hluti þess vantreystir fjölmiðlum og það er undir stjórn forseta sem hefur einmitt haldið því fram margítrekað að póstkvæði muni leiða til þess að demókratar „steli kosningunum“ og að niðurstöður þeirra verði ómarktækar vegna póstatkvæða.
Það er búið að sá fræjum efans, þrátt fyrir að ekkert sem haldbært er í raunveruleikanum bendi til þess að póstatkvæði auki hættuna á kosningasvindli.
Blandan er eldfim og af þessu hafa margir áhyggjur, meðal annars stóru tæknifyrirtækin, sem telja sig bera ábyrgð á því að upplýsingaóreiða á þeirra miðlum fari ekki úr böndunum í kringum kosningar.
Kjarninn greindi frá því í liðinni viku að Facebook ætlaði að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að takast á við þetta og væri meðal annars komið í sérstakt samstarf við Reuters-fréttastofuna og bandarísk kosningayfirvöld til þess að tryggja að falsfréttir um kosninganiðurstöðurnar færu ekki á flug. Ef einhver frambjóðandi eða fylking reynir að lýsa yfir sigri áður en niðurstaðan liggur fyrir, þá mun Facebook merkja þá pósta sem slíka og beina notendum sínum inn á síðu þar sem hægt er að glöggva sig á stöðu atkvæðatalningar.
Mark Zuckerberg stofnandi Facebook sagði við sjónvarpsþátt Axios á HBO í lok viku að það væri því miður aukin hætta á óeirðum í samfélaginu og mikilvægt væri fyrir Facebook og aðra áhrifamikla miðla í bandarísku samfélagi að gera sitt til þess að vekja almenning til vitundar um að það að þrátt fyrir að kosningaúrslit liggi ekki fyrir á kosninganótt, heldur kannski enn fyrr en dögum eða vikum síðar, þýði það ekki að það sé eitthvað ólögmætt við framkvæmd kosninganna.
„Ég held að við þurfum að gera allt sem við getum til þess að draga úr hættunni á ofbeldi eða óeirðum í kringum þessar kosningar,“ sagði Zuckerberg. Samkvæmt kosningalögum þurfa öll bandarísku ríkin að vera búin að skila lokaniðurstöðum þann 8. desember, rúmum mánuði eftir kosningar.
Biden með forystu í skoðanakönnunum sem fyrr
Joe Biden forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins hefur nokkra forystu á Donald Trump samkvæmt skoðanakönnunum, þrátt fyrir að dregið hafi saman með þeim undanfarna daga.
Samkvæmt kosningaspá Economist, þar sem niðurstöður fjölda skoðanakannana eru vegnar, eru sigurlíkur Bidens 83 prósent og hann með 53,9 prósenta stuðning á landsvísu gegn 46,1 prósenta stuðningi við Trump.
Kosningaspá FiveThirtyEight gefur Biden 70 prósent sigurlíkur og Trump 29 prósent sigurlíkur á móti, en í tölfræðiútreikningum sínum setur FiveThirtyEight upp 40.000 sýndarkosningar sem byggja á niðurstöðum nýjasta samansafns skoðanakannana hverju sinni. Samkvæmt samantekt FiveThirtyEight myndi Biden hljóta 52,5 prósent atkvæðamagnsins og Trump 46,2 prósent.
Eftir stendur þó spurningin hvenær hvaða atkvæði verða talin og hvað myndi gerast ef Donald Trump myndi lýsa yfir sigri á kosninganóttinni eftir tæpa tvo mánuði, þegar alls óljóst væri hvort sigurinn væri í raun hans.